143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

skipulagslög.

512. mál
[17:39]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég tek undir með hv. þingmanni, þetta er mjög athyglisvert. Ég get upplýst það að ég sem formaður skipulagsnefndar í Reykjavík í eitt kjörtímabil upplifði margsinnis nákvæmlega það sem hv. þingmaður rakti, þ.e. að verktakar sem höfðu keypt eignir eða heilu lóðirnar eða fasteignir á heilu lóðunum og jafnvel á heilu reitunum vildu fá að koma með hugmyndir sínar. Það gerðist oft að menn komu með algerlega tilbúna skipulagsuppdrætti: Svona viljum við gera þetta. Þá þurfti sveitarfélagið í raun að byrja að hugsa með sér — bíddu, hvernig sjáum við þetta fyrir okkur. Og svo setti það fram hugmyndir sínar og þetta fóru að verða samningaviðræður. Ég tel að þetta sé ekki góð aðferðafræði svona út frá heildarhugsun í skipulagi. Þess vegna velti ég fyrir mér af því að í 38. gr., sem hér er verið að breyta, í gildandi lögum stendur, með leyfi forseta:

„Landeigandi eða framkvæmdaraðili getur óskað eftir því við sveitarstjórn að gerð sé tillaga að deiliskipulagi eða breytingu á deiliskipulagi á sinn kostnað.“

Þetta finnst mér vera annað orðalag og hafa aðra merkingu en það sem er í þessu frumvarpinu. Viðkomandi aðili getur óskað eftir því við sveitarfélagið að unnið sé deiliskipulag eða breyting á því á hans kostnað, og þá er hann ekki búinn að leggja í þá miklu vinnu og leggja fjármuni til. Hann biður um að þessi vinna fari í gang og sveitarfélagið getur þá sagt: Já, allt í lagi, þessi vinna getur farið í gang á þinn kostnað. Þetta eru skilmálarnir. Svona má reiturinn vera með þessum skilmálum að því er varðar landnotkun, að því er varðar nýtingarhlutfall og annað slíkt, hæðir húsa o.s.frv.

Þetta er allt önnur nálgun en hin sem mér finnst dálítið að ég lesi út úr frumvarpinu (Forseti hringir.) að viðkomandi geti bara komið með tilbúið skipulag, sem er ástand sem (Forseti hringir.) sveitarfélögin almennt vilja koma sér út úr.