143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

skipulagslög.

512. mál
[18:05]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þessa skýringu á mismunun á leigulóð og eignarlóð, ég hafði ekki áttað mig á því að þetta væri svona. En eins og ég nefndi í upphafi hef ég ekki verið í sveitarstjórn og er þess vegna ekki inni í skipulagsmálum eins og flestir þeir sem hér hafa tekið til máls og eru mjög miklir fræðingar í þeim málum.

Mig langar til að nefna aftur 11. gr., þar sem segir að ef það á að breyta aðalskipulagi eigi að tilkynna það innan tólf mánaða frá kosningum. Síðan kemur skýring á því, og ég skil það, það er gott fyrir Skipulagsstofnun að vita hvað er í gangi, vita hverju hún á von á og hvað hún þarf að gera. Svo segir í skýringum með 11. gr.:

„Talið er eðlilegt að ákvörðun um endurskoðun sé tekin sem fyrst eftir sveitarstjórnarkosningar til þess að endurskoðun aðalskipulags komist í framkvæmd á kjörtímabili sveitarstjórnar.“

Nú þekki ég ekki svo náið til á sveitarstjórnarstiginu, en er þetta kostur? Væri ekki bara betra að vinna við aðalskipulag næði fram yfir kosningar, það sé framhald á henni? Segjum að það verði meirihlutaskipti, er eitthvað verra að annar meiri hluti vinni áfram með þá tillögu sem lögð hefur verið fram? Þarf að afgreiða aðalskipulag innan kjörtímabils? (Forseti hringir.)Ég get ekki séð að það þurfi.