143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

skipulagslög.

512. mál
[18:10]
Horfa

Margrét Gauja Magnúsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil fá að þakka fyrir mjög góða ræðu frá hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni og ég tek undir allt sem í henni kom fram. Ég tel að hér séu tveir sveitarstjórnarmenn með töluverða reynslu sem þekkja málin vel á eigin skinni.

Þau eru mörg dæmin sem eru víti til varnaðar. Ég þekki það að t.d. þegar góðærið var hvað mest og peningaöflin hvað sterkust var komið til skipulagsráða sveitarfélaganna með skýjaborgir, miklar skýjaborgir. Rökin voru þau, ef sveitarstjórnarfulltrúar ætluðu að setja sig upp á móti þeim, voru þeir á móti framförum og móti framkvæmdum, hér mætti aldrei gera neitt og það ætti bara að byggja gamalt. Kannski höfðu sveitarstjórnarfulltrúarnir bara áhyggjur af eins og t.d. fagurfræðilegum gildum og blómlegum bæ, en við skulum alveg halda því til haga að verktakar eru ekkert alltaf að hugsa um blómlega bæi og fagurfræðileg gildi, þetta snýst um arð.

Nú eru í mörgum sveitarfélögum, eru tómar lóðir miðsvæðis, tanngarðar ef maður mætti orða það svo, þar sem hafa verið skipulagðar skýjaborgir. Ég ætla að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að ákvæði um bótaréttinn í þessum nýju lögum geti verið mjög íþyngjandi fyrir sveitarfélögin ef þau mundu vilja snúa við þessum skýjaborgum, t.d. í takt við tímann árið 2014.