143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

skipulagslög.

512. mál
[18:14]
Horfa

Margrét Gauja Magnúsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Miðað við það sem ég að minnsta kosti hef innt eftir hér í umræðunum held ég að hv. umhverfis- og samgöngunefnd hafi ágætisveganesti í vinnu sinni fram undan við að koma til móts við þessar athugasemdir af því að þetta er raunveruleikinn, hann er svona. Það þarf að byrgja brunninn. Það þarf að koma í veg fyrir að hér geti komið fjársterkir aðilar og nýtt sér völd sín í samfélaginu og komið fram með öll þau rök sem ég nefndi, þegar það á í raun að vera hlutverk sveitarstjórnarmanna að hugsa um áhuga íbúanna og þarfir þeirra og vilja og um blómlegan bæ, ef svo mætti segja, og fagurfræðileg gildi. Þau eru mikilvæg í okkar samfélagi.

Ég er svolítið hrædd um bótaréttinn af því nú er komin svo ofboðslega skýr krafa um þéttingu byggðar. Þetta er raunveruleg krafa. Hún snýst ekki bara um almenningssamgöngur, hún snýst líka um það að hér er húsnæðisskortur og fólk vill minni íbúðir og það þarf að fylla í þessi sár. En það má samt ekki vera þannig að til þess að geta hrint í framkvæmd þéttingu byggðar þurfi sveitarfélögin að reiða úr pyngjum sínum svívirðilega háar upphæðir til að uppfylla bótarétt.