143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

skipulagslög.

512. mál
[18:34]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi tímafrestina. Ég hef aldrei verið þess heiðurs aðnjótandi að sitja í sveitarstjórn og næ ekki alveg að setja mig í þau spor hversu langan tíma tekur að taka ákvörðun um það hvort fara skuli fram með breytingu á aðalskipulagi í kjölfar sveitarstjórnarkosninga en ímynda mér þó að tólf mánaða frestur ætti að duga í því efni.

Að því er varðar hins vegar hinn þátt spurningar hv. þingmanns um hvort breytingin sem hér er gert ráð fyrir á 51. gr. gildandi skipulagslaga feli í reynd ekki í sér neina efnisbreytingu þykir mér alveg ljóst að með orðalaginu er verið að breyta býsna miklu. En það sem vekur mér einfaldlega áhyggjur í þessu samhengi er umfjöllun í greinargerðinni um greinina sjálfa á bls. 23 og áfram og ofarlega á bls. 24, þá er sem sagt búið að rekja forsögu ákvæðisins og segir svo, með leyfi forseta:

„Styður þessi forsaga bótaákvæðisins í 1. mgr. 51. gr. gildandi skipulagslaga þá ályktun að hið breytta orðalag, sem hér er lagt til í 1. mgr. frumvarpsákvæðisins, feli hvorki í sér rýmkun bótaréttar né takmörkun hans heldur miði breytingin aðeins að betri skýringu réttarins.“

Nú er ég ekki sérfróður á þessu sviði þó löglærður sé og þekki ekki þá úrskurði sem kunna að hafa fallið á grundvelli gildandi lagaákvæðis. En ef þeir hafa (Forseti hringir.) staðfest í gildi eldri laga þá er auðvitað ekki um efnisbreytingu að ræða. Ef þeir hafa hins vegar (Forseti hringir.) talið að í ákvæðinu fælist eitthvað meira þá er hér um breytingu að ræða jafnvel þó að menn telji að svo sé ekki í ljósi forsögunnar.