143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

skipulagslög.

512. mál
[18:38]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert að heyra það mat hv. þingmanns að þessi frestur sé í styttra lagi, tólf mánuðir frá sveitarstjórnarkosningum ef mikil umskipti verða sérstaklega í sveitarstjórn. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni, það er kannski síður að verða undantekning en regla. Ég las frétt í dag að í heimabæ hans, Akureyri, eru horfur á að sjö af ellefu muni hætta, að hámarki fjórir muni sitja áfram. Í Kópavogi eru það að hámarki tveir, það eru því gríðarleg umskipti í lykilsveitarfélögunum í landinu.

Ég átta mig ekki fyllilega á því hvernig samhengi dómafordæmanna sem hér eru rakin og orðalagsins á hverjum stað er nákvæmlega og ítreka að miklar upplýsingar eru í greinargerðinni, en hún er kannski heldur strembnari en svo að maður skilji nákvæmlega til fulls allar þær flóknu vísanir á einu eftirmiðdegi. Ég held því að full ástæða sé fyrir nefndina að eyða dálítilli orku í að greina nákvæmlega stöðuna sem uppi er, til dæmis núna í Skuggahverfinu, og einsetja sér að breyta því ástandi og óska eftir greiningu sérfræðinga ráðuneytisins á því hvað mundi þurfa til að komast út úr slíku ástandi.

Við höfum annað dæmi handan við götuna þar sem Reykjavíkurborg hefur í samningum um Landssímahúsreitinn verið í þröngri samningsstöðu vegna þess að fyrir liggur skipulag þar sem lóðarhafinn hefur gríðarlegar heimildir til uppbyggingar og þess vegna hefur borgin verið að semja við hann með aðra hönd bundna fyrir aftan bak vegna þess að hann hefur alltaf getað sagt: Ég get þó alltaf byggt eftir gildandi skipulagi.

Út úr slíkum ógöngum þurfum við að komast.