143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

skipulagslög.

512. mál
[18:41]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er nú á svipuðum slóðum. Ég hlustaði af athygli á umræður um ekki síst þennan þátt málsins er snýr að skipulagi, skipulagsákvörðunum, breytingu á skipulagi og bótum eða bótarétti ef til kemur. Í því samhengi er auðvitað galli að þetta frumvarp er svona seint fram komið því þessa þætti þarf að vanda mjög vel. Það er að vísu rétt að ágætisgreinargerð er með frumvarpinu og maður verður nokkuð fróðari af lestri hennar. Ég vil engu að síður spyrja hv. þm. Árna Pál Árnason um það hvernig er skást að hans mati að ganga frá þessu. Á aðra hliðina viljum við að sjálfsögðu ekki að menn séu réttlausir og óvarðir fyrir því að eign þeirra sé rýrð og komið sé í bakið á þeim með breytingum á skipulagi, ef maður gefur sér að menn hafi verið í góðri trú og haft ástæðu til að ætla að allt gengi eftir. En á hinn bóginn er mjög slæmt ef sveitarfélög sitja uppi rígbundin af gömlum ákvörðunum og hafa ekki svigrúm til að endurskoða skipulag og geta lent í bullandi bótagreiðslum í þeim efnum.

Maður veltir fyrir sér hvort það sé nægilega vel aðgreint að mönnum sé bætt sannanlegt tjón, virðisrýrnun eignar eða bættur útlagður kostnaður sem þeir hafa haft og verið í góðri trú með, og síðan allir aðrir möguleikar á kröfum sem við sjáum auðvitað að eru gerðar. Menn reikna jafnvel með því að þeir hefðu haft svo og svo mikinn hagnað af byggingu á viðkomandi reit og reisa himinháar kröfur á því sem þeir skella á sveitarfélögin. Þarf ekki að greina betur á milli, (Forseti hringir.) greina betur andlagið fyrir kröfugerðina við svona aðstæður til að sveitarfélögin séu betur varin fyrir (Forseti hringir.) óheyrilegum bótagreiðslum ef illa fer?