143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

skipulagslög.

512. mál
[19:06]
Horfa

Edward H. Huijbens (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvör og spurningar. Þetta eru vissulega nýleg lög og þeim þurfti að breyta út af þessu ákvæði sem stóð út af um bótaréttinn. Því ber auðvitað að fagna að það sé loksins komið hérna fram og það eins vandað og raun ber vitni. Ég fagna því.

Spurt var hvort frestur til 12 mánaða væri hæfilegur og hvað þætti hæfilegt í því. Ég held að það sé hæfilegt eftir tvö ár, þ.e. 24 mánuði, sem sagt á miðju kjörtímabili vegna þess að þá er sýn búin að mótast, hæfilegur tími er liðinn til að þýða sýn nýrra pólitískra afla á aðalskipulagsgrunn eins og hann liggur fyrir. Yfirleitt er ekki um miklar kollsteypur að ræða þegar menn þýða sína pólitísku sýn yfir á aðalskipulag. Engu að síður þurfa menn að læra tungutakið og koma sér inn í þetta, ég tala nú ekki um að koma sér í mjúkinn hjá skipulagsstjóra yfirleitt og skipulagsdeild og læra aðeins inn á þetta allt saman. Eins og ég segi velti ég fyrir mér hvort mitt kjörtímabilið gæti ekki bara verið hæfilegur tími. Mín reynsla er að minnsta kosti sú að um það leyti hafi maður öðlast sæmilegt öryggi í nýju tungutaki og hátterni til að geta farið að tína sig inn í þetta.

Hvað varðar síðari spurninguna, um að bíða til 2020, segi ég að það sé eiginlega engin ástæða til þess. Það eru öll tæki í hendi hjá sveitarfélögum til að gera skipulagsvinnu og skipulagsgögn stafræn. Flest stærri sveitarfélögin halda úti mjög öflugum vefsjám. Þar er allar þessar upplýsingar að finna og hægt að nýta sér þær. Þær vefsjár eru til í mörgum gerðum en stærri sveitarfélögin eru að nýta sér þetta. Ég held að kannski strandi þarna á minni sveitarfélögunum, þ.e. þeim sem ekki hafa burði, mannskap eða fé til að innleiða til dæmis svona vefsjár (Forseti hringir.) sem er raunveruleikinn hjá stærri sveitarfélögunum.