143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

skipulagslög.

512. mál
[19:18]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það megi taka saman þessar vangaveltur með þeim orðum að kannski séu rík rök fyrir því að binda betur heimildir fasteignareigenda, byggingarleyfishafa, til nýtingar, afmarka það betur, auka möguleika almannavaldsins á að grípa inn í út frá hinu félagslega landslagi í sveitarfélögunum og út frá viðhorfum til borgarsamfélags.

Það er athyglisvert að ef maður horfir á skipulagsmálin áratugi aftur í tímann þá eru hverfi sem menn töldu búsældarleg fyrir mörgum áratugum, kannski upp úr seinna stríði, ekki byggð í dag, eru hverfi félagslegrar einangrunar, með áherslu á einkabílinn og annars konar umgjörð um daglegt líf en fólk væntir almennt í dag.

Þetta er alþjóðleg þróun en ekki séríslensk þannig að ég vildi í þessu seinna andsvari enda á spurningu til hv. þingmanns: Telur hann að þá sé kannski skynsamlegt að fara að þeirri tillögu sem er að finna í greinargerð frá frumvarpshöfundum um að menn leggi í ríkari vinnu til að afmarka betur réttindi og skyldur jafnt stjórnvalda og fasteignareigenda innan þess ramma og endurskoði skipulagslöggjöfina með það að leiðarljósi?