143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

skipulagslög.

512. mál
[19:20]
Horfa

Edward H. Huijbens (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvörin og vangavelturnar. Ég get tilkynnt það hér með mikilli gleði, og væntanlega hv. þingmanni til ánægju líka, að við erum eiginlega alveg fullkomlega sammála, sérstaklega þegar kemur að því sem ég held að rammi inn þá umræðu sem hér hefur farið fram í nokkra tíma um þetta mál, þ.e. að nefndin sem nú tekur málið til umfjöllunar fjalli nánar um og skilgreini nánar afmörkunina og rétt sveitarfélaga til að grípa inn í og til að breyta um leið og réttur fasteigna- og byggingarréttarhafa er tryggður. Sýn á hverfið og sýn á uppbyggingu þarf að ráðast af fleiru en fermetraverði sem nú er mjög ráðandi og hefur verið lengi, þ.e. hvar er hagkvæmast að byggja og annað slíkt.

Eitt sorglegasta dæmi sem ég þekki um það er norður á Akureyri. Þegar verslunarmiðstöðin Glerártorg var byggð var gömlu Gefjunarverksmiðjunum hreinlega eytt. Þær voru jafnaðar við jörðu, hvert eitt og einasta hús. Kúlan var sett á fallegt steinsteypt hús daginn áður en það varð 100 ára til þess eins að það yrði nú ekki friðlýst og til að hægt yrði að rífa það. Í staðinn fyrir þá skemmtilegu blöndu eldri og nýrri húsa, húsa úr steinsteypu sem höfðu verið byggð af metnaði og einkenndust af glæsileik; húsa sem hefði verið hægt að setja ýmiss konar lifandi verslunarumhverfi í, varð úr grár og ljótur kassi sem heitir Glerártorg. Þarna hefur verið ráðandi í sýn allt önnur hugmyndafræði en hv. þingmaður lýsti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að sú sýn sé orðin meira ráðandi og ríkjandi.

Skipulagsmál ráðast með öðrum orðum af mörgu fleira en einhvers konar hagkvæmnimati út frá fasteignaverði eða samgöngum. Þau ráðast út frá lífsgæðum, sýn á félagslega blöndun og ýmsa aðra þætti. Það þarf að vera hægt að taka tillit til þess í skipulagsmálum og sérstaklega þegar kemur að mögulegum bótarétti.