143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[20:01]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um vernd og orkunýtingu landsvæða. Tillagan felur í sér að breyting verði á gildandi áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða að því leyti að Hvammsvirkjun færist úr biðflokki í nýtingarflokk. Ekki er lagt til að aðrar breytingar verði á áætluninni. 14. janúar 2013 var þingsályktun um vernd og orkunýtingu landsvæða samþykkt á Alþingi. Við samþykkt áætlunarinnar tóku gildi ákvæði laga nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun, fyrir utan 1.–3. gr laganna sem tóku gildi við samþykkt þeirra 16. maí 2013.

Í mars 2013 skipaði þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra nýja verkefnisstjórn áætlunarinnar og hófst þá þriðji áfangi verndar- og orkunýtingaráætlunar, þ.e. rammaáætlunar eins og hún hefur verið kölluð í daglegu tali, jafnvel ramminn. Í erindisbréfi verkefnisstjórnarinnar er kveðið á um að hún skuli, með leyfi forseta, „hafa til hliðsjónar ábendingar sem koma fram í nefndaráliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis á 141. löggjafarþingi um rammaáætlun“ og að hún skuli „skila áfangaskýrslu um stöðu mála fyrir 1. mars 2014“ og að þar skuli „gera grein fyrir þeim svæðum sem tilgreind eru sérstaklega í 12. kafla álits meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis“.

12. júlí sl. setti sá sem hér stendur viðauka við erindisbréf verkefnisstjórnarinnar þar sem þeim tilmælum er beint til hennar að forgangsraða vinnu sinni þannig að hún framkvæmi eins fljótt og auðið er faglegt mat á þeim sex virkjunarkostum sem færðir voru úr nýtingarflokki í biðflokk eftir umsagnarferli 2. áfanga áætlunarinnar og þeim tveimur kostum sem ekki fengu fullnægjandi mat í meðförum fyrri verkefnisstjórnar, þ.e. Hagavatni og Hólmsá við Atley. Stefnt var að því að leggja fram nýja tillögu til þingsályktunar á vorþingi 2014 og því óskað eftir að tillögur verkefnisstjórnar um þessa kosti lægju fyrir ekki síðar en 15. febrúar sl.

Síðla hausts 2013 varð verkefnisstjórn ljóst að hún mundi eingöngu ná að fjalla um þá þrjá virkjunarkosti í neðri hluta Þjórsár sem fjallað er um í 12. kafla álits meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar þingsins. Í samræmi við ákvæði 10. gr. laga nr. 48/2011, um verklag og málsmeðferð, lagði verkefnisstjórn verndar- og orkunýtingaráætlunar fram tillögur sínar til ráðherra 21. mars sl. eftir lögbundið samráðsferli. Ég bendi á að tillögur verkefnisstjórnar er að finna í fylgiskjali við þingsályktunartillögu þessa.

Eins og fram hefur komið hefur verkefnisstjórn rammaáætlunar lagt til að Hvammsvirkjun verði flutt úr biðflokki í orkunýtingarflokk. Verkefnisstjórn gerir að öðru leyti ekki tillögu um breytingu á þeirri röðun virkjunarkosta sem fram koma í núgildandi verndar- og orkunýtingaráætlun sem samþykkt var, eins og áður sagði, á Alþingi 14. janúar 2013. Verkefnisstjórn taldi sig ekki geta tekið afstöðu til Holtavirkjunar og Urriðafossvirkjunar þar sem ekki lægju fyrir upplýsingar um markmið fyrir mótvægisaðgerðir sem miða að verndun fiskstofna, eftirlits- og viðbragðsáætlun með lýsingu á viðbrögðum ef markmiðum er ekki náð og skilgreining á því hvaða viðbótarrannsóknir þurfi að gera á búsvæðum laxfiska í Þjórsá, einkum Þjórsárkvísl neðan við Búða og í Murneyrarkvísl. Þess má geta að þó nokkur umræða spannst innan verkefnisstjórnarinnar um til hvaða viðfanga ætti að taka tillit í meðförum verkefnisstjórnarinnar þó að þeim hafi áður verið lýst í samþykktum Alþingis.

Í tillögum verkefnisstjórnar er meðal annars að finna umfjöllun um þær athugasemdir sem bárust í samráðsferlinu og vísa ég til þeirrar umfjöllunar um einstök atriði. Þó vil ég nefna að verkefnisstjórn tekur fram í tillögum sínum að þrátt fyrir að hún telji að í athugasemdum við tillögur verkefnisstjórnarinnar sé að finna gagnlegar ábendingar bendir hún jafnframt á að þær hafi flestar komið fram áður og telur hún að athugasemdirnar kalli ekki á endurskoðun á tillögunni, þ.e. að leggja til að Hvammsvirkjun flytjist í nýtingarflokk en Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun verði áfram í biðflokki.

Jafnframt vil ég benda á að fulltrúi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis í verkefnisstjórn gerir þann fyrirvara við þessa niðurstöðu að ný gögn komu fram í umsögn Landsvirkjunar frá 18. mars sl. um tvær síðarnefndu virkjanirnar. Þau gögn virðast ná til þeirra atriða sem sett eru fram í greinargerð verkefnisstjórnar um viðbótargögn sem þurfa að liggja fyrir til að hægt sé að taka afstöðu til þessara virkjunarkosta. Gögnin þurfi að skoða betur og geti þau kallað á endurskoðun á fyrri afgreiðslu verkefnisstjórnar varðandi flokkun á umræddum virkjunarkostum. Að auki lagði fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga í verkefnisstjórn fram sérálit þar sem lagt er til að allir þrír virkjunarkostirnir í neðri hluta Þjórsár verði færðir úr biðflokk í orkunýtingarflokk. Jafnframt hefur komið fram að fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis í verkefnisstjórn hafa gert athugasemdir við texta um mótvægisaðgerðir virkjana í neðri hluta Þjórsár sem er að finna í lokaorðum undirkafla 7 í skýrslu verkefnisstjórnar.

Á grundvelli þess sem ég hef farið yfir er í þingsályktunartillögu þessari lagt til að orkukosturinn Hvammsvirkjun verði færður úr biðflokki í nýtingarflokk.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið meginefni tillögu þessarar til þingsályktunar. Í ljósi þingskapa og þess að hér sé fyrst og fremst lagt til að einum kosti verði vísað úr biðflokki í nýtingarflokk legg ég til að málinu verði að lokinni fyrri umr. vísað til hv. atvinnuveganefndar.