143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[20:09]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og hv. þingmaður þekkir vel hefur umræðan um laxfiskana í Þjórsá og þann mikilvæga villta laxastofn verið það sem hefur kannski staðið helst út af í umræðunni á síðustu missirum. Það eru þekkt rök frá þeim sem hv. þingmaður vísaði til að hefðu sent inn umsagnir. Þau eru svo sem þekkt og hafa verið nokkuð lengi. Á sama hátt hefur Veiðimálastofnun til að mynda verið með aðrar skoðanir á þessu í vinnu verkefnisstjórnarinnar. Hún fékk sérstaklega sérfræðinga til að meta þetta. Í ljósi þeirrar niðurstöðu er lagt til að Hvammsvirkjun ein fari í nýtingarflokk, en þeir benda á að það þurfi frekari rannsókna við sem menn greinir síðan á um hvernig eigi að standa að og hvort þeim hafi verið svarað í síðustu umsögn Landsvirkjunar eins og ég kom inn á í ræðunni. Ég tel eðlilegt að nefndin fari yfir það.

Ég vil þó benda á að í umræðunni hafa einnig komið fram þær mótvægisaðgerðir sem Landsvirkjun hefur í hyggju að gera við Hvammsvirkjun. Það er verið að prófa ákveðna seiðafleytu sem upphaflega stóð ekki til að yrði sett við Hvammsvirkjun heldur fyrst og fremst við Urriðafossvirkjun. Þar gefst mjög gott tækifæri til að sannreyna hvort sú seiðafleyta virki eins og ég held að menn vonist eftir. Þannig öðlast menn kannski reynslu áður en þeir taka afstöðu til þess hvort til að mynda Urriðafossvirkjun yrði sett í nýtingarflokk án þess að ég sé að taka afstöðu til þess á þessum tímapunkti. Ég er frekar að velta upp (Forseti hringir.) þeim vangaveltum sem hafa komið fram í umsögnum og því sem (Forseti hringir.) hefur helst verið til umfjöllunar.