143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[20:11]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Þarna eru skiptar skoðanir og það sem verndarsjóður villtra laxastofna gerir athugasemd við er að faghópurinn telji réttlætanlegt að færa virkjunina af því að hún hafi áhrif utan hins náttúrlega útbreiðslusvæðis göngufiska. Hann vitnar til þess að þarna sé nýtt göngusvæði sem er frá árinu 1991. Það var gerður fiskvegur við fossinn Búða.

Þetta mál þarf að ræða í hv. atvinnuveganefnd eða umhverfis- og samgöngunefnd. Ég ætlaði að inna hæstv. ráðherra eftir því, ég hefði talið eðlilegt að þetta mál sem er stórt umhverfismál færi til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og vil gjarnan heyra hví hæstv. ráðherra telur eðlilegt að því verði vísað til hv. atvinnuveganefndar.

Verndarsjóðurinn telur gríðarleg verðmæti felast í þessum villta laxastofni sem eigi möguleika á að vaxa og dafna í Þjórsá en það hangir á því hvernig haldið verður á spilunum varðandi framkvæmdir. Þar eru líka mjög stórir hagsmunir.

Ég spyr hæstv. ráðherra aftur um nefndamálin og ítreka þá skoðun mína að þetta sé umhverfismál sem á að sjálfsögðu að fara til þeirrar nefndar.