143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[20:13]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er að verða langur dagur og verður sjálfsagt lengri hjá okkur.

Hv. þingmaður spyr af hverju ég leggi til að málinu verði vísað til atvinnuveganefndar. Eins og ég kom inn á er fjallað um það í þingsköpum hvert mál eigi að fara. Síðast þegar við fjölluðum um málið var sú breyting á að mál sem áður hafði farið til atvinnuveganefndar, þ.e. rammaáætlun í heild sinni, fór til umhverfisnefndar. Nú eru fyrst og fremst tilteknir átta kostir sem voru til skoðunar. Einn kostur er síðan færður í nýtingarflokk en það er ekki verið að færa neinn í verndarflokk. Á grundvelli þess er að mínu mati eðlilegt að málið hljóti umfjöllun í atvinnuveganefnd.

Rökin um laxastofninn eru vel þekkt, eins og ég segi. Ég sé að hv. þm. Össur Skarphéðinsson gengur í salinn og þá er gaman að nefna að ég hef nýlokið við að lesa þá ágætu bók sem hann gaf út í vetur þar sem hann ítrekar sem sérfræðingur í laxfiskum að þau rök sem þar eru höfð uppi um Þjórsá, m.a. af hálfu NASF, séu kannski haldlítil að einhverju leyti þótt vissulega eigi að skoða öll rök mjög gaumgæfilega.

Ég tek undir það að villti laxastofninn í Þjórsá er mjög mikilvægur. Hann hefur vaxið gríðarlega mikið eftir að menn fóru með manngerðum hætti inn og settu laxastiga við fossinn Búða. Þá stækkuðu gríðarlega mikið búsvæðismöguleikar villta laxastofnsins í Þjórsá. Kannski hafa líka virkjanirnar ofar í ánni gert það að verkum að það er minna um stór aurflóð sem ganga niður ána. Þá hafa þau svæði sem stofninn getur nýtt sér í Þjórsá vaxið að miklum mun. Ég tel eðlilegt að það verði farið vel yfir þetta í nefndum (Forseti hringir.) þingsins.