143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[20:17]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég nefndi þá tilgreindi ég bara þá sem gert höfðu fyrirvara við niðurstöðuna, að hún hefði ekki verið einróma og að settar hefðu verið fram athugasemdir. Í athugasemd frá fulltrúa atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins í verkefnisstjórn benti sá fulltrúi á að í umsögn Landsvirkjunar, sem dagsett er 18. mars 2014 um Urriðafossvirkjun og Holtavirkjun, að þau gögn sem þar eru virtust að hans mati ná til þeirra atriða sem sett eru fram í greinargerð verkefnisstjórnarinnar um viðbótargögn sem liggja þurfa fyrir til að hægt sé að taka afstöðu til þeirra virkjunarkosta. Hann segir að skoða þurfi betur þessi nýju gögn Landsvirkjunar og kalla á endurskoðun á fyrri afgreiðslu verkefnisstjórnar varðandi flokkun á umræddu virkjunarsvæði.

Þetta er sem sagt með tilvísun til bókunar fulltrúa atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Engu að síður er það niðurstaða verkefnisstjórnarinnar að einungis Hvammsvirkjun færist úr biðflokki í nýtingarflokk og er það óbreytt afstaða frá því fyrir umsagnarferlið þegar verkefnisstjórnin skilaði af sér. Niðurstaða verkefnisstjórnarinnar var þó ekki alveg einróma, fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga taldi að allir þrír kostirnir í neðri hluta Þjórsár ættu að fara í nýtingarflokk.