143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[20:21]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um breytingu á þingsályktun um vernd og orkunýtingu landsvæða, sem við köllum í daglegu tali rammaáætlun. Þetta gerist mjög skömmu eftir að síðasta rammaáætlun var samþykkt, eða rúmu ári, en nú er lögð til breyting á henni þar sem lagt er til að einn virkjunarkostur, Hvammsvirkjun í Þjórsá, færist úr biðflokki yfir í nýtingarflokk. Það þarf kannski ekki að rifja það upp hér en það er nú samt ástæða til að gera það, að það var afar umdeilt þegar áætlunin var samþykkt á sínum tíma. Þó var það svo að um þá þrjá virkjunarkosti sem voru til skoðunar í neðri hluta Þjórsár bárust mjög miklar umsagnir síðast þegar rammaáætlun var hér til umfjöllunar, umsagnir sem urðu til þess að ákveðið var að færa þessa kosti úr nýtingarflokki yfir í biðflokk. Meðal ítarlegustu athugasemda sem þar bárust voru athugasemdir um laxastofnana í Þjórsá, sem ég kom aðeins að í andsvari mínu. Nú hafa á nýjan leik borist allnokkrar athugasemdir sem lúta að þessum laxastofnum, enda hafa landeigendur við Þjórsá unnið árum saman mjög markvisst að því að bæta lífsskilyrði fyrir laxfiska í ánni og hefur sú vinna skilað sér í stóraukinni laxagengd og mikilli verðmætaaukningu fyrir veiðiréttarhafa. Það er ekki óvarlegt að áætla að þessi vöxtur geti haldið áfram, en það er alveg ljóst að fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir setja strik í þann reikning.

Eins og ég nefndi áðan í andsvari mínu hefur verndarsjóður villtra laxastofna bent á að mjög mikil verðmæti felist í þessari laxagengd og vakin er athygli á að skipaður var faghópur haustið 2013 sem meta átti hvort áhrif virkjana í neðri hluta Þjórsár hefðu það lítil áhrif á laxastofnana að unnt væri að færa einhverja þeirra eða alla í nýtingarflokk. En vissulega hefur faghópurinn haft afar skamman tíma til þess að fjalla um málið. Í umsögn verndarsjóðs villtra laxastofna, sem send var verkefnisstjórn um rammaáætlun, segir að ekki sé fallist á þessi sjónarmið, þ.e. þau að ekki séu veruleg áhrif af virkjuninni, að hægt sé að fara í mótvægisaðgerðir með þessum svokölluðu seiðaveitum. Bent er á að ekki sé rökrétt að gera greinarmun á þeim fiski sem lifir ofan og neðan fossins Búða. Eins og ég nefndi var þar settur laxastigi 1991 sem stórbætti laxagengd á því svæði.

Umhverfismatið sem þessar framkvæmdir byggja á eru frá árinu 2003 þannig að það er komið fram yfir þann tíu ára frest. Því er hægt að krefjast endurskoðunar á því. Margir hafa bent á það í athugasemdum sínum um þetta.

Fram kom í máli hæstv. ráðherra áðan að hann leggur til að þessu máli verði beint til hv. atvinnuveganefndar, sem kemur mér mjög á óvart því að málefni rammaáætlunar hafa einmitt verið til umfjöllunar í hv. umhverfis- og samgöngunefnd í vetur og höfum við m.a. fengið fulltrúa frá verkefnisstjórninni til að fjalla um gengd laxfiska í Þjórsá. Við höfum fengið ýmsa fulltrúa til að ræða lög um rammaáætlun. Það er algerlega ofvaxið mínum skilningi að nú eigi með þessum furðulega hætti að hrifsa málið hér á milli nefnda og ég hef ekki heyrt fullnægjandi rök fyrir því. Ég spyr: Hefði ég sem hæstv. menntamálaráðherra, þegar ég gegndi því embætti, beint lögum sem undir mig heyrðu til annarra þingnefnda? Mér finnast þetta mjög einkennileg vinnubrögð.

Mér finnst nánast eins og hv. umhverfis- og samgöngunefnd hafi verið höfð að fífli í allri sinni umfjöllun um rammaáætlun í vetur. Ég átta mig bara alls ekki á því þegar hæstv. ráðherra hefur sjálfur mætt á fund nefndarinnar til þess að ræða hvernig vinnu verði háttað við þeirri vinnu sem hér hefur staðið yfir af hálfu verkefnisstjórnar. Ég lít nú svo á að við séum ekki alveg búin að bíta úr nálinni með þetta og vil nota tækifærið hér til þess að gera harðorðar athugasemdir við þetta ferli. Það getur vel verið að kjósa þurfi um þetta, en ég segi að ég er algjörlega mótfallin þessu, mér finnast þetta ófagleg vinnubrögð og mér finnst þetta þvert á allt sem unnið hefur verið hér í allan vetur, nánast eins og menn hafi ekki áttað sig á því að málaflokkur rammaáætlunar hefur verið færður hér á milli ráðuneyta og heyrir nú undir hæstv. umhverfisráðherra og umhverfisráðuneytið en ekki iðnaðarráðuneytið þar sem þessi málaflokkur var áður.

Það sýnir nú kannski einhverja hugmyndafræði á bak við það, að menn telji enn þá að þetta sé ekki mál sem varðar umhverfið, að þetta sé bara einfalt atvinnumál. Ég geri því mjög alvarlegar athugasemdir við þetta og reikna með því eftir þau orð sem ég hef látið hér falla og bent á hvernig við erum búin að vera með þetta mál til umfjöllunar — að þetta sé einhver misskilningur sem verði væntanlega leiðréttur hér á eftir og að málinu verði beint til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.

Við höfum m.a. tekið fyrir áhrifin á laxfiskana í umhverfis- og samgöngunefnd þannig að það kemur mér á óvart. Ég vænti þess að hv. atvinnuveganefnd þurfi að hefja þá vinnu algjörlega frá grunni ef málið á að fara til hennar, enda kemur hér fram að mjög margar af þeim athugasemdum sem bárust lúta að þeim.

Síðan kemur hér að þeirri athugasemd sem ég nefndi áðan sem lýtur að umhverfismatinu. Þar er bent á, sem er rétt, að nú þarf að óska eftir ákvörðun Skipulagsstofnunar um hvort endurskoða þurfi að hluta eða í heild matsskýrslu framkvæmdaraðila. Það gerist í raun og veru síðar í ferlinu og er alveg réttmætt svar verkefnisstjórnar, að því er ég tel. Hins vegar hlýtur það auðvitað að teljast eðlilegt, þótt við séum ekki að fjalla um það hér, að endurtaka umhverfismat. Það tengist því máli sem við ræddum hér fyrr í dag um mat á umhverfisáhrifum, en fyrir liggur að liðin eru 11 ár síðan umhverfismat var gert. Það er ansi langur tími þannig að ég vænti þess nú, fari svo að þetta mál verði samþykkt og þessi virkjunarkostur verður færður í nýtingarflokk, að umhverfismat verði endurtekið, það liggur ljóst fyrir. Tíu ár eru allt of langur tími til þess að geyma umhverfismat því að mjög margt breytist á þeim tíma, nýjar upplýsingar koma fram, fyrir utan bara hugarfarsbreytingu. En ég er ekki í nokkrum vafa um það að fari svo að þetta mál verði samþykkt, hljóti menn að sjálfsögðu að endurskoða umhverfismatið ef vilji er til þess að taka faglega á málinu.

Það er auðvitað rétt sem verkefnisstjórnin segir og kemur fram í greinargerðinni að þarna eru ýmsar gagnlegar ábendingar. Þetta er væntanlega ein af þeim.

Annað sem ég vil gera athugasemd við í ræðu minni á þeim stutta tíma sem ég hef hér til að ræða um þetta er að samfélagsleg áhrif séu ekki tekin með. Á það var bent á fundi hv. umhverfisnefndar sem fjallaði um þetta mál fyrr í vetur. Þá benti verkefnisstjórnin á að meginsvið hennar hefði verið að skoða athugasemdirnar sem komu fram sem urðu þess valdandi að kostirnir væru færðir úr nýtingarflokki í biðflokk, það voru athugasemdir um laxastofnana. Ég held hins vegar að samfélagslegu áhrifin séu eitt af því sem við höfum ekki tekið nægilegt mið af þegar við ræðum framkvæmdir á borð við þessar. Ef við viljum horfa á þetta út frá hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar á ekki bara að meta framkvæmdir út frá efnahagslegum áhrifum og út frá umhverfislegum áhrifum í víðum skilningi, heldur líka út frá hinum samfélagslegu áhrifum. Það er að vísu erfitt að meta samfélagsleg áhrif og á það var bent á fundi nefndarinnar þegar við ræddum málið, að hugsanlega væri erfitt að meta samfélagsleg áhrif fyrir fram, það væri í raun og veru auðveldara eftir á. Það er nú kannski eins og með allar framkvæmdir, það er auðveldara að meta öll áhrif eftir á. En það eru vissulega til fræði um það hvernig meta á samfélagsleg áhrif, hvaða áhrif svona framkvæmdir hafa á samfélagið. Þá nægir að nefna hvaða áhrif þær hafa á byggð og hvaða áhrif þær hafa á aðra atvinnustarfsemi. Til að mynda: Mun þetta í þessu tilviki hafa áhrif á ferðamennsku á svæðinu? Mun þessi framkvæmd hafa áhrif á þá sem eiga veiðirétt við Þjórsá? Það kemur fram í umsögnum frá verndarsjóði villtra laxastofna, það hefur enn ekkert verið rætt við veiðiréttarhafa um þetta mál.

Að sjálfsögðu þarf að telja með samfélagsleg áhrif af svona framkvæmd. Verkefnisstjórn bendir á að eðlilegt sé að leggja mat á samfélagsáhrifin við mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar en þetta sýnir í raun og veru hversu stutt við erum á veg komin í því að innleiða hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar við alla ákvarðanatöku. Ég held að það sé nú kappsmál hjá stjórnvöldum að vinna að því að styrkja hinn samfélagslega þátt í því þegar við metum framkvæmdir á borð við þessa þannig að við séum bæði með efnahagslegu áhrifin, umhverfiskostnaðinn, (Forseti hringir.) sem við höfum alls ekki nægjanlega skýr fræði til þess að reikna, og svo samfélagslegu áhrifin.

Virðulegi forseti. Ég neyðist kannski til að tala aftur um þetta mál þar sem tíminn var svo stuttur.