143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[21:04]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við höfum oftar en ég hef tölu á staðið í ræðustól þingsins og velt fyrir okkur ástæðunum fyrir alls konar vitleysu sem hefur gerst í þingsal. Við höfum velt vöngum yfir því af hverju hæstv. umhverfisráðherra valdi á sínum tíma að afturkalla náttúruverndarlög. Við reyndum að skilja það. Það fóru fram hérna slíkar samkomur að minnti á miðilsfundi á köflum þar sem reynt var að skilja af hverju fólk gerði það sem það gerði. Þegar hæstv. utanríkisráðherra kom með fordæmalausa tillögu um afturkall á aðildarumræðum að Evrópusambandinu og enginn skildi tímasetninguna, enginn skildi það, kom í ljós að ráðherrann skildi það ekki heldur. Það kom í ljós að þetta reyndist afar vitlaus tímasetning, hvort sem var fyrir málið eða stöðu ríkisstjórnarinnar sem hefur nánast verið í frjálsu falli síðan og vandi Sjálfstæðisflokksins aldrei meiri en síðan það gerðist.

Ég veit því ekki hvaða blanda af innantökum og pólitísku stöðumati er hér í gangi. Það er augljóst að vandmeðfarið er að lesa í hana, hvernig hún er samansett.

Skuldatillögurnar reynast ekki njóta stuðnings þjóðarinnar. Þær njóta raunar ekki einu sinni stuðnings kjósenda stjórnarflokkanna nema að minni hluta. Kannski líður stjórnarþingmönnum og meiri hlutanum ekki nógu vel. Kannski snýst þetta um að reyna að hugsa í þá veru að sókn sé besta vörnin.

Ég verð að segja að það leggst lítið fyrir hæstv. umhverfisráðherra ef þetta er hans fyrsta útspil í nýrri sókn Framsóknarflokksins.