143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[21:11]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það breytir að sjálfsögðu svolítið hugarfarinu sem maður fer með inn í þessa umræðu þegar upptakturinn er á þennan hátt því að það vekur upp tortryggni, eins og hv. þingmaður fór yfir áðan í ræðu sinni. Verkefnisstjórn leggur hér til — og samkvæmt lögunum er það bara verkefnisstjórnin sem býr til tillöguna, hún þarf ekki að fara til ráðherrans, það er þingið sem vinnur síðan með hana. Hæstv. ráðherra hefur sagt að hann sé óánægður með vinnu verkefnisstjórnarinnar. Hæstv. iðnaðarráðherra hefur líka sagt það. Maður veltir fyrir sér fyrst það á að biðja atvinnuveganefndina að fara yfir málið og taka þessa stefnubreytingu hvort verið sé að binda vonir við að það komi einhver pólitísk tillaga út úr hv. atvinnuveganefnd. Það dettur manni í hug í umræðunni eftir að þessi snúningur var tekinn. Ég hugsaði með mér þegar ég heyrði að hæstv. ráðherra vildi að málið færi til hv. atvinnuveganefndar: Já, auðvitað átti maður að búast við því. En samt gekk maður inn í salinn og í umræðuna í þeirri góðu trú að menn ætluðu að fylgja þessu eftir.

Ég vil spyrja hv. þingmann um vangaveltur mínar og hvort hún haldi að þetta geti verið með þessum hætti?