143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[21:13]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það geti verið að mörgu leyti. Ég held að það sé að koma ítrekað fram sem við í sjálfu sér vöruðum við fljótlega eftir kosningar þegar ráðherrann sem tók sæti í umhverfisráðuneytinu talaði fyrir því að það væri lagt niður. Það var fyrsta útspilið, að það væri eiginlega best að það yrði lagt niður. Þá strax reis græn bylgja í samfélaginu gegn því, gegn þeim áherslum. Síðan höfum við séð hvert málið á fætur öðru. En strax í byrjun vöruðum við við því að umhverfisráðuneytinu yrði blandað á þennan hátt saman við nýtingarráðuneyti, vegna þess að þar með gæti komið upp sú staða að ráðherrann stæði uppi með að þurfa að vega og meta andstæða hagsmuni. Það er mjög snúið að vera í þeirri stöðu.

Mig langar að segja af því hv. þingmaður velti upp áðan tillögum frá orkumálastjóra að það er mitt mat og mín eindregna skoðun að orkumálastjóri hafi engan lagagrunn til þess að koma með tillögur á þennan hátt. Engan lagagrunn. Ég hef heyrt röksemdir hans fyrir því að það sé þannig. Það segir í lögunum að honum sé heimilt að gera tillögur, en þarna gerir hann rétt rúmlega það vegna þess að hann kemur með tillögur sem eru ekki aðeins óflokkaðar og óskoðaðar heldur fráleitar, algjörlega fráleitar, á náttúruminjaskrá, á náttúruverndarsvæðum innan friðlýstra svæða eða hafa áhrif á friðlýst svæði. Það er algjörlega fráleitt.

Ég var mjög ánægð að heyra þegar verkefnisstjórn rammaáætlunar tók þessu með jafnaðargeði og það kom mjög fljótlega fram varðandi tillögurnar að þar sem um væri að ræða kosti þar sem mat lægi þegar fyrir (Forseti hringir.) á skýran hátt og engar nýjar upplýsingar (Forseti hringir.) lægju fyrir væri engin ástæða til að endurmeta þá niðurstöðu.