143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[21:25]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er kannski ekki alveg sammála hv. ræðumanni um að þetta sé svona svart eins og hann málar hér. Eins og ég hef áður sagt þá er ég hjartanlega sammála því að mér finnst vondur bragur á því að lagt sé til að þetta fari í atvinnuveganefnd. Vissulega hræðir það og maður hugsar: Hvað eru þeir nú að gera?

Á hinn bóginn, ég held ég muni rétt, voru þessir þrír kostir í Þjórsá, af einhverri verkefnisstjórn, einhvern tímann þegar þetta kom fram, í nýtingarflokki. Vegna laxagengdarinnar koma upp þau sjónarmið að það hafi ekki verið kannað, þess vegna eru þeir fluttir í biðflokk og beðið um að litið sé til þess hvort laxastofnarnir geti verið í hættu. Nú sýnist mér að út úr því hafi komið að við þurfum að skoða betur tvo neðri kostina, sem eru Urriðafoss og Holtavirkjun, en að þessi sé í lagi, að þetta sé í lagi vegna þeirra mótvægisaðgerða eða þess sem Landsvirkjun hyggst gera.

Mér sýnist þetta ekki vera svona grábölvað og svart eins og þingmaðurinn lætur í ljósi. Hann getur kannski sannfært mig samt.