143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[21:28]
Horfa

Edward H. Huijbens (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar.

Ég viðurkenni fúslega að ég málaði þetta dökkum litum enda fannst mér tilefni til vegna þess að uppleggið og það sem undir liggur er kannski ekki sagt beinlínis í því sem hér er til umfjöllunar, en það sem undir liggur er að mínu viti ansi svart og birtist okkur í ýmsu öðru sem hv. þingmenn Svandís Svavarsdóttir og Katrín Jakobsdóttir hafa til að mynda tíundað hér í ræðupúltinu. Þess vegna þykir mér rétt að tala nokkuð umbúðalaust um þetta út frá okkar sjónarmiðum, það er nú svona eitt.

En það er alveg hárrétt að ef við horfum einangrað á frumvarpið sem slíkt þá lítur þetta ágætlega út þannig séð. En, og ég vil færa rök fyrir því, það lítur ekki nógu ágætlega út. Það er rétt að þrír kostir í Þjórsá voru settir í nýtingu en voru færðir í bið til að fá nánari upplýsingar um laxagengdina og áhrif þar á. Við mat á því, sem var eina verkefni matsaðila, að meta það tiltekna atriði, er komist að þeirri niðurstöðu að óvissu sé sennilega eytt upp að nægjanlegu marki til að þetta sleppi, það er eiginlega inntak niðurstöðunnar ef hún er lesin í heild sinni, þetta er sennilega nóg til að þetta sleppi. En það gleymist þarna ein mikilvæg forsenda, það er mat á eðli og umfangi mótvægisaðgerðanna og hvaða áhrif þau mögulega komi til með að hafa. Það er ekki nægjanlegt að mínu viti að meta það á einum stað í einu vatnakerfi.

Vistkerfi eru ákaflega flókin og vatnasvið eru margþætt og flókin. Það þarf að meta með miklu heildrænni hætti og í samhengi við neðri tvær virkjanirnar líka og ána alla í heild sinni sem prófessor Skúli Skúlason gerði, og fleiri. En eðli og umfang mögulegra mótvægisaðgerða þarf að meta þannig líka. Það tel ég ekki nægilega vel gert. Ég álít að þarna hefði meiri vinnu þurft að leggja í til að við vitum með meiri vissu um áhrifin á þennan laxastofn sem allir eru sammála um að þurfi að vernda.