143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[21:35]
Horfa

Edward H. Huijbens (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágætisábendingu. Það er alveg hárrétt að það borgar sig ekki að reyna að rífa ferlið upp um of, það þarf að halda ferlinu. Ég held að lykilbreytingin í því að halda ferlinu eins og það er sé að skerpa á lögunum með þeim hætti að lögin verði ekki tekin upp nema á fjögurra ára fresti, það held ég að sé lykilatriði til að skerpa lögin til þess að losa okkur úr þeirri klemmu sem við erum þegar komin í.

Ég get líka alveg sagt það og viðurkenni heiðarlega að ég dreg enga dul á fortakslausar efasemdir mínar um stórvirkjanir, um framkvæmdir stórvirkjana í því andrúmslofti sem hér er. Ég spyr mig: Til hvers er verið að þessu? Hvert eiga þessi 60–80 megavött sem þarna vinnast að fara í ljósi þess umhverfis sem við erum í? Erum við allt í einu að tala um áburðarverksmiðju í því samhengi eða hvað?

Ég lýsi fortakslausum efasemdum mínum um allar stórvirkjanir. Ég vil þá frekar ganga lengra í því að neyða menn til að rökstyðja þær í þaula, vel og vandlega og út frá mörgum sjónarhornum, ekki bara út frá laxastofnum eða einhverju slíku. Ég mun einfaldlega standa hér í púltinu og orga mig hásan um það og berja á mönnum um þetta mál í ljósi þess umhverfis og andrúmslofts sem við erum í sérstaklega nú um þessar mundir.

En lykilsvarið væri þá kannski þessi breyting, að skerpa á lögunum á fjögurra ára fresti, og það er alveg hárrétt, vegna þess að ég mundi ekki vilja sjá neinar flýti- eða hraðmeðferðir í nokkra átt í þeim efnum.