143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[21:37]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var nú kannski vandinn við að fara út í þessa tillögu. Þá var verið að ná meiri sátt og reyna að losna við það að við hefðum ólíkar skoðanir í þinginu, umfram það hefðum við jú bara skoðanir, að við fyndum leiðir til þess að finna svörin sameiginlega þannig að við værum ekki endalaust að takast á og beita meiri hluta til þess að koma einhverjum einstökum málum í gegn. Það er það sem ég ýjaði að áðan, mér finnst skipta miklu máli að við vöndum okkur, að við reynum að skýra þetta ferli þannig að ekki verði hægt að vera með geðþóttaákvarðanir og beita meiri hluta á hverjum tíma, kalla fram einhverjar lausnir sem menn eru mjög ósáttir við bara með því að beita atkvæðamagni hér í þinginu og kynda bálið þannig. Burt séð frá því getum við haft ólíkar skoðanir á einstökum virkjunarkostum.

Ég vil vekja athygli á því að verkefnisstjórn sú sem nú er að störfum, sem ég ber fullt traust til, var skipuð 25. mars 2013 og mér sýnist hún einmitt hafa staðið í fæturna þegar verkefnum var dembt til hennar. Þá sagði hún bara: Nei, við vinnum þetta eins og okkur eru skapaðar aðstæður til, við tökum þau verkefni sem beinlínis voru sett í biðflokk til að rannsaka þau betur og leggja mat á þau. Ég ætla að vona að verkefnisstjórn þessi og hver svo sem skipuð verður taki faglega verkefnið fram yfir allt annað, þ.e. að hún leggi mat á hvert mál fyrir sig og láti ekki stjórnast af kröfum eða óskum, hvort sem það kemur frá Orkustofnun, hæstv. ráðherra eða einhverjum öðrum.

Ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni að meginendurskoðunin á ekki að fara fram oftar en fjórða hvert ár. Það geta verið einstakir virkjunarkostir í biðflokki sem vinna þarf áfram með, á sama hátt og við ætlumst til þess að það sem er í verndarflokki fari í friðun eða verndun, og að það sé gengið frá því sem slíku þannig að ekki sé endalaust verið að reyna að draga þá kosti yfir í nýtingarflokk.