143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[21:50]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um breytingu á þingsályktun um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, tillögu sem í fljótu bragði og raunar strax hér í upphafi hefði ekki átt að gefa tilefni til neins annars en að allir stæðu á bak við hana. En forsenda þess að allir standi á bak við hana er að við séum að vinna að því sameiginlega að koma á vönduðu ferli um hvernig við reynum að ákveða hvað á að vernda, hvað á að nýta og hvað á að rannsaka betur.

Um það voru samþykkt sérstök lög og þingsályktunartillagan á sínum tíma er afkvæmi þeirra laga. Því miður hafa menn nú farið að túlka þessi lög eða þessar tillögur með ýmsum hætti og seilast býsna langt í þeim tilraunum. Í staðinn fyrir að tala okkur til sátta hefur í raunveruleikanum verið alið á sundrung og þar hefur farið fremstur í flokki hæstv. umhverfisráðherra með því að varpa hverri sprengjunni á fætur annarri inn í umræðuna. Ein af þeim varðar einmitt það hvaða nefnd tillagan á að fara í. Af hverju skyldi það geta orðið ágreiningsefni þegar tillagan hefur verið í umfjöllun hjá ákveðinni nefnd? Það er verið að breyta henni og þá hefði ég talið affarasælast að menn settu hana á sama stað og afgreiddu hana þar. Menn fara líka að tortryggja þau skilaboð sem verið er að gefa með því að fara með þetta inn í atvinnuveganefnd. Ég veit að menn settust yfir þetta og reyndu að meta hvað væri best í þessari stöðu. Mér finnst það svolítið lykta af því að það sé eitthvað verið að ýta á eftir að þetta gangi með einhverjum öðrum hætti ef þetta fer í atvinnuveganefnd en í umhverfisnefnd. Slík tortryggni er ekki til að ýta á eftir málum.

Við höfum rætt þetta mál ítrekað. Manni hefur dauðbrugðið á þessu kjörtímabili frá því að ný ríkisstjórn tók við. Fyrst komu yfirlýsingar um að það ætti bara að henda náttúruverndarlögunum, draga þau algjörlega til baka, ekki einu sinni fresta heldur bara kalla þau til baka og eyðileggja þar fjögurra, fimm ára vinnu. Sem betur fer tókst að bjarga því í þinginu þannig að sú tillaga verður endurmetin og skoðuð og síðan endurflutt með nauðsynlegum breytingum til að ná meiri sátt um málið.

Ég varð til dæmis þess heiðurs aðnjótandi að vera í umhverfis- og samgöngunefnd sem varamaður þegar fjallað var um þessa tillögu í byrjun, þá er ég að tala um afturköllun á náttúruverndarlögunum, og ég verð að segja að ég sat eiginlega agndofa og hlustaði á sum af þeim samtökum sem höfðu barist fyrir því að þau yrðu kölluð til baka, eins og Bændasamtökin sem voru með sárafáar og nánast engar athugasemdir, segja að flestar hefðu verið komnar í gegn, það hefði verið tekið tillit til þeirra en af því að þau hefðu ekki verið ráðgjafar í verkinu eða tekið þátt í nefndarstarfinu gætu þau ekki stutt tillöguna. Ef þetta verður aðferðin til að vinna áfram í þessum málaflokkum verðum við í hagsmunagæslu fyrir ólíka hópa og berjumst fyrir því að þeir komist að borðinu til skiptis. Það er vonlaus aðferð til að reyna að ná sátt í verndar- og nýtingarmálum landsvæða eins og hér er verið að tala um. Sem betur fer tókst að stöðva þetta.

Síðan komu yfirlýsingar um að það eigi að reyna að breyta skipulagi þannig að það verði sett inn einhver ákveðin tota og breytt skipulag til að ná inn Norðlingaöldu. Af hverju? Síðan kemur Orkustofnun með fullt af tillögum, kastar þessu öllu inn á borðið aftur og hæstv. ráðherra talar líka um að það þurfi að taka fullt af málum og endurmeta þau. Hópar eru búnir að vera í þessu verkefni sem og verkefnisstjórnir og þar á undan faghópar. Ef það á að gera þetta svona er búið að eyðileggja þessa tillögu og þessa hugmynd. Það þætti mér mjög miður.

Tillagan er sem hér segir, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að eftirfarandi breyting verði á þingsályktun um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, nr. 13/141: Liðurinn „Suðurland, Þjórsá, 29 Hvammsvirkjun“ í a-lið 2. tölul. (Biðflokkur) færist í a-lið 1. tölul. (Orkunýtingarflokkur).“

Ég get stutt þessa hugmynd. Ég hafði fyrirvara og studdi þá ákvörðun að setja þessa virkjun í biðflokk með tilteknum rökum. Verkefnisstjórnin hefur farið yfir og metið þennan virkjunarkost að nýju og komist að þeirri niðurstöðu sem er birt í tillögu hæstv. ráðherra. Síðan fylgir þessu greinargerð sem var ágætlega farið yfir og auk þess tillaga að flokkun virkjunarkosta, þ.e. tillaga verkefnisstjórnar rammaáætlunar. Þar eru færð rök fyrir því af hverju þeir treysta sér strax til að færa akkúrat þessa virkjun frá biðflokki yfir í nýtingarflokk. Þannig taldi ég að þetta ætti að virka. En af því að það hefur tekist að gera þetta tortryggilegt, og maður hefur ástæðu til að ætla að það séu einhver önnur markmið fram undan sem jafnvel víki frá þeim reglum sem settar voru, verða bremsurnar settar niður hjá mörgum og erfiðara að koma málinu í gegn. Það verður byrjað að ala á óánægju aftur og togstreitu um það hvernig við eigum að leysa vernd og nýtingu.

Hver hefði til dæmis látið sér detta í hug, eftir allt það ferli sem á undan er gengið á mörgum árum og jafnvel áratugum sem leiddi til þeirrar niðurstöðu að vera hér með rammaáætlun, að það væri hægt að túlka lögin þannig að um leið og þessi þingsályktunartillaga væri samþykkt mætti henda öllum verndartillögunum inn aftur og biðja um að þær yrðu endurmetnar? Hvernig á þetta að virka ef menn hafa verkefnisstjórn sem endalaust á að endurmeta allan pakkann? Þessi rammaáætlun er til lítils ef menn ætla að túlka þetta svona. Í athugasemdum með þeirri þingsályktunartillögu sem hér er til umræðu stendur, með leyfi forseta:

„Samkvæmt 3. gr. laga nr. 48/2011 skal eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.“

Svo ætla menn að lesa í þetta að það þýði þá að frá fyrsta degi megi leggja þessa tillögu fram, bara ef það er innan fjögurra ára. Þetta minnir mig á það þegar einu sinni var úthlutað landi til ákveðins félagsskapar sem ég er félagi í þar sem hann fékk allt að 600 metra landspildu með vatni og síðan fengum við tillögu frá viðkomandi ráðuneyti sem hafði lagst gegn þessu og gegn ráðherra sínum þar sem það ætlaði að fara að úthluta 50–100 metrum. Ég held að menn geti ekki leyft sér að lesa þessa tillögu um „eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti“ svo að það sé hægt að leggja allt undir á hverjum tíma jafn eðlilega og það að þau atriði sem eru í biðflokki séu í skoðun hjá verkefnisstjórninni og sífellt sé unnið að þeim þannig að það sé hægt að vinna þær rannsóknir sem þarf til að meta hvort viðkomandi kostur fer í verndarflokk eða nýtingarflokk. Það er eðli tillögunnar.

Og hvernig gat maður búist við því að það sem fór í verndarflokk yrði dregið aftur upp á borðið? Ég sagði það í byrjun. Það er aftur dregið upp á borðið og beðið um endurmat og reynt að koma því yfir í nýtingarflokk. Til hvers er þá að setja verndarákvæði um að Gullfoss verði ekki virkjaður, ekki Dettifoss og ekki Geysir? Þar er nú slagur um eignarhald á svæðinu og menn geta búist við því að menn vilji fara að fénýta frekar eignir sínar og þá geta menn endalaust komið fram með virkjunarkosti. Nei, við viljum það ekki. Við viljum fá einhvers konar þjóðarsátt eða meirihlutasátt þar sem kveðið er á um að við séum búin að koma náttúruperlum á Íslandi í skjól. Þess vegna biðst ég undan því að menn komi með tillögur eins og hafa komið. Ég hef tilhneigingu til að styðja þessa einstöku tillögu til að reyna að festa í sessi það ferli sem við erum að reyna að koma á og fylgja því þá eftir meðan við förum yfir lagaumhverfið þannig að það verði skýrt hvað er átt við með allt að fjögurra ára fresti. Hvaða tillögur má Orkustofnun gera? Það getur ekki verið einhver leikur að kasta fram hugmyndum sem menn segja: Ja, við þurfum að vita um bestu og verstu kosti, og leika sér með þeim hætti að rammaáætlun.

Lítið mál sem hlýtur eðlilega afgreiðslu verður stórmál vegna þess umhverfis sem það er lagt fram í og það umhverfi hefur hæstv. ráðherra skapað, því miður.