143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[22:00]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans og vil vekja máls á því sem hann gerði að umtalsefni í upphafi ræðu sinnar sem er meira form en innihald kannski, þ.e. tillögu um að vísa þessu þingmáli til atvinnuveganefndar en ekki til umhverfis- og samgöngunefndar. Þetta kemur að sjálfsögðu á óvart. Við heyrðum að forseti Alþingis fór hér með lestur nokkurn, húslestur, úr nefndaráliti þingskapanefndar frá árinu 2011, þegar þetta mál var þar til umfjöllunar. Að mínu viti túlkar hann það nefndarálit ekki algerlega rétt, setur það heldur ekki í rétt samhengi við það sem síðar hefur gerst sem undirbyggir enn frekar að þetta mál eigi heima í umhverfis- og samgöngunefnd, nefnilega það að forræði málsins, á vettvangi Stjórnarráðsins og ríkisstjórnarinnar, var flutt frá iðnaðarráðherra til umhverfisráðherra og þegar þetta mál kom hingað inn á 141. löggjafarþingi fór það einmitt til umhverfis- og samgöngunefndar en ekki til atvinnuveganefndar. Hvort tveggja styður þann málflutning að þetta mál hljóti að fara til umhverfis- og samgöngunefndar enda er það mál sem hér liggur fyrir einungis takmörkuð breyting á þeirri þingsályktun.

Ég vil inna hv. þingmann eftir því hvort hann sé sammála þeim skilningi að þetta mál eigi að vera á forræði umhverfis- og samgöngunefndar enda þó að vel geti komið til álita að fjallað sé um það í fleiri en einni þingnefnd eins og oft gerist, en hvort hann sé ekki sammála þeim skilningi að málið sem hæstv. umhverfisráðherra flytur eigi að fara til umhverfis- og samgöngunefndar.