143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[22:05]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég get svo sem alveg veitt andsvar líka eða svarað eftir atvikum. Já, ég held nefnilega að hv. þingmaður geti haft rétt fyrir sér. Hér er fiskur undir steini. Það er einhver ástæða fyrir því að menn ætli að bregða út af því sem áður var þegar þetta mál var hér til umfjöllunar á 141. löggjafarþingi. Það er einhver ástæða. Getur hún verið sú að hæstv. umhverfisráðherra, sem flytur málið, treysti sér ekki til að vísa málinu til hv. umhverfisnefndar sem þó er undir forustu samflokksmanns ráðherrans, hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar? Kannski er það rétt, sem hv. þm. Guðbjartur Hannesson sagði, að það fer um stjórnarliðið að vita af málum farandi inn í þá nefnd miðað við reynsluna af hv. formanni umhverfisnefndar sem vann ötullega að því að ná breiðri sátt um afgreiðslu náttúruverndarmáls. Kannski er það það sem stjórnarliðar vilja ekki.

Þetta er mjög sérkennilegt að mínu viti og mér finnst virðulegur forseti, sem las hér áðan úr nefndu nefndaráliti, teygja sig býsna langt út fyrir það sem að mínu viti getur talist eðlileg túlkun á þingskapalögunum hvað þetta snertir. Það er alveg ljóst í mínum huga að samkvæmt þeim fara umhverfismál almennt til umhverfisnefndar og áætlanir um vernd og nýtingu fara til umhverfisnefndar. Það var fyrst og fremst sá hluti auðlindamála þar sem verið var að tala um nýtingu á grundvelli rannsókna, þar gætum við til dæmis verið að tala um mál sem lúta að heildarafla í sjávarútvegi (Forseti hringir.) sem er auðlindanýting á grundvelli ráðgjafar (Forseti hringir.) — það eru þess háttar auðlindamál sem hugsunin var að gæti farið til atvinnuveganefndar en alls ekki heildaráætlanir eins og rammaáætlunin um heildarnýtingu.