143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[22:10]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er athyglisvert mál og hv. þm. Guðbjartur Hannesson kom ágætlega inn á í ræðu sinni að það læðist að manni að minnsta kosti sú vangavelta ef ekki grunur að menn séu að reyna að komast eins langt með mál sem snúa að rammaáætlun og þeir mögulega geta, reyna svolítið á þolmörkin, vita hversu fast sé hægt að pota án þess að undan hrökkvi. Ég velti því fyrir mér alveg eins og hv. þingmaður hvort það geti verið að eitthvað búi þarna að baki.

Það sem mig langar að biðja hv. þingmann um að gera í andsvari sínu er að koma aðeins inn á hvað honum finnst um þá aðferðafræði að plokka út eitt og eitt ber eða einn og einn mola úr kassanum, eins og þarna er gert, í stað þess að reyna á hverjum tíma að líta svolítið heildrænt á þetta og útsetja ekki þingið fyrir því þing eftir þing að þurfa að fara í sama ferlið aftur og aftur vegna þess að það er, eins og hv. þingmaður kom inn á áðan, ekki leiðin til að ná sátt í svona máli og getur tæplega verið það sem löggjafinn hugsaði sér þegar rammaáætlun var samþykkt á sínum tíma og þegar lögin um rammaáætlun voru sett. Það hlýtur miklu frekar að hafa verið hugmyndin að reyna að lenda þessum málum þannig að það gæti náðst um þau sátt til lengri tíma litið.