143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[22:14]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðbjarti Hannessyni fyrir svarið. Nú hefur aðeins borið á því hér í kvöld að hv. þingmenn hafi lýst furðu sinni á því að það sé vilji ráðherra að þetta mál gangi til hv. atvinnuveganefndar. Ég verð að játa að mér finnst það dálítið skrýtið. Hv. þm. Guðbjartur Hannesson, sem er skólamaður, var að ræða um að til að mynda þegar ætti að stofna nýjan framhaldsskóla einhvers staðar á landinu yrði það náttúrlega að fara til atvinnuveganefndar af því að einhver þyrfti að byggja skólann. Mér finnst þetta álíka hundalógík, að vegna þess að einhver þarf að byggja virkjunina eða af því að afleiðingin af byggingu virkjunarinnar verður væntanlega einhvers konar innspýting í atvinnulífið eigi breyting á áætlunum um vernd og orkunýtingu landsvæða að fara til atvinnuveganefndar. Mig langar aðeins að heyra aftur hvað þingmanninum finnst um þetta og hvort þessi samlíking geti átt við.

Ég er sjálfur sammála þeim vangaveltum sem hafa komið fram um að kannski sé hreinlega ákveðinn beygur í hæstv. ráðherra við að láta málið fara til samflokksmanns síns sem náði á listilegan hátt að lenda náttúruverndarlögunum, líklega þá í andstöðu við eindreginn vilja ráðherra síns. (Forseti hringir.) Kannski vill hæstv. ráðherra hreinlega ekki að málið fari í sáttaferli.