143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[22:19]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Hér hefur kristallast nokkur ágreiningur um það hvert skuli vísa þessari þingsályktunartillögu. Tillaga hæstv. ráðherra er að henni verði vísað til hv. atvinnuveganefndar en aðrir þingmenn hafa réttilega bent á að hún ætti betur heima í umhverfis- og samgöngunefnd. Af ýmsum ástæðum er kannski sú helst að hér er um að ræða breytingartillögu við áður afgreitt þingmál sem var einmitt unnið í umhverfis- og samgöngunefnd þannig að ég bið um að skrifstofa þingsins skoði mjög ítarlega hvort til séu fordæmi um það að breytingartillaga við áður afgreitt þingmál hafi farið til annarrar þingnefndar en upphaflegt mál.