143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[22:26]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég hef sagt hér áður og verð að segja að það veldur mér þungum vonbrigðum þó að, eins og ég sagði áður, menn kunni að hafa ákveðið það í fljótheitum út frá orðum í lögum um þingsköp að eðlilegt væri að þegar virkjunarkostur færist úr biðflokki í nýtingarflokk fari hann til atvinnuveganefndar.

Við skulum horfa á þetta í samhengi. Hvað ef virkjunarkostur færist úr biðflokki yfir í verndarflokk? Fer hann þá til umhverfisnefndar?

Við hljótum öll að sjá hversu óskynsamleg þessi tilhögun er. Ég hef ekki orðið vör við annað en að hæstv. forseti þingsins og hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra vilji báðir kenna sig við skynsemi. Ég held að þegar við förum yfir rökin í málinu hljóti menn að átta sig á því að þetta eru einhver fljótheit. Augljóslega á málið heima hjá umhverfis- og samgöngunefnd nema við ætlum að vera með sömu frumvörpin og sömu lögin að flækjast á milli margra ólíkra nefnda í þinginu. Allir sjá að þetta er ekki (Forseti hringir.) nokkurt vit.