143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[22:29]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fara nokkrum orðum um þá tillögu til þingsályktunar sem hér liggur fyrir. Ég vil fyrst segja að ég fagna þessari tillögu. Ég er efnislega sammála henni og ég tel að hún sýni betur en flest annað hversu skynsamlega hefur verið að málinu staðið þegar við höfum byggt upp kerfi það sem við nú búum við um rammaáætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

Á sínum tíma undir árslok 2012, þegar greidd voru atkvæði um niðurstöðu þingsályktunartillögunnar sem hér er lagt til að breytt verði, þá studdi ég þá tillögu en hafði um það nokkur orð að ég ætti erfitt með að sjá hin skýru rök fyrir flokkuninni hvað varðar þennan tiltekna kost hér, Hvammsvirkjun og einnig Holtavirkjun. Ég taldi hins vegar miklu skipta að fá sem fyrst efnislega niðurstöðu í þær rannsóknir sem ráðast þyrfti í til að eyða öllum vafa því að þó að ég teldi rökin skýr þá eru blessunarlega fleiri í landinu en sá sem hér stendur og eðlilegt að skoðanir séu skiptar.

Það voru margir sem höfðu þá stór orð uppi um hvílíkt feigðarflan það væri að setja með þessum hætti nokkra kosti í biðflokk og láta fara fram frekari rannsóknir á þeim. Sú skjóta niðurstaða sem nú er kom úr frekari rannsóknum á Hvammsvirkjun staðfestir að mínu viti fullkomlega skynsemi þess að ganga fram með þessum hætti. Ég taldi þá og tel enn rík rök þurfa að hníga til þess að taka fullhannaða orkukosti eins og Hvammsvirkjun og fyrir sinn hatt líka Holtavirkjun úr nýtingu til langframa enda um fullhannaðar virkjanir að ræða í byggð sem hafa óveruleg neikvæð umhverfisáhrif. Það er mikilvægt þegar við horfum á kostina að meta atvinnuhagsmuni, meta umhverfishagsmuni, vega þá á móti hvor öðrum og þá verður niðurstaðan í mínum huga skýr hvað varðar Hvammsvirkjun. Ég bíð núna eftir niðurstöðunni hvað Holtavirkjun varðar og svo eru líka í gangi rannsóknir á Urriðafossvirkjun.

Almennt vildi ég segja nokkur orð um löggjafarumhverfið á sviði umhverfismála. Það er einkanlega vegna túlkunar Orkustofnunar á lagaheimildum sínum og löggjöfinni sem um þennan málaflokk ríkir og felur í reynd í sér að Orkustofnun skuli túlka mál með þeim hætti að henni sé beinlínis lögskylt að láta í sífellu reyna á endurþróun orkukosta sem þegar hafa verið flokkaðir með verndargildi. Það er ekki uppskrift að sátt um nýtingu og vernd að halda stöðugt á lofti ágreiningi um það sem einu sinni hefur verið ákveðið að skuli njóta verndar. Engum dytti í hug að snúa þessu við og telja það vera lögskyldu Skipulagsstofnunar eða Umhverfisstofnunar að láta stöðugt á það reyna hvort kosti sem þegar hefðu verið nýttir ætti kannski að friða. Eða hvernig þætti mönnum ef stöðugt væri verið að láta prófa það að flytja úr nýtingarflokknum hluti sem þegar hefði verið komist að niðurstöðu um að hefðu ekki verndargildi? Það geta auðvitað vel breyst sjónarmið þar um en hvað verndarþáttinn varðar þá er um býsna óafturkræfar aðstæður að ræða ef kostir teljast á annað borð hafa verndargildi.

Ég tók líka eftir þessari sömu hugmyndafræðilegu tilhneigingu hjá Landsvirkjun þegar fram komu hugmyndir um nýja útfærslu Norðlingaölduveitu, að líta svo á að það væri einhver lögskylda að láta sífellt og endalaust, æ ofan í æ, ár eftir ár láta reyna á ýtrustu kröfur um orkunýtingu af hálfu Landsvirkjunar rétt eins og Orkustofnunar. Ég tel fulla ástæðu til þess að fara yfir lagaumhverfið að þessu leyti því að við getum auðvitað ekki búið við svo hola sátt að hún feli í reynd í sér að menn séu lögskyldir til að leitast við að rjúfa hana árlega og að við getum ekki reiknað með neinu öruggu, neinni vissu og það sé árlegur viðburður að lagt verði í rannsóknir á því hvort virkja eigi Gullfoss, svo dæmi sé tekið. Það er ekki skynsamleg leið, hún er ekki skynsamleg fyrir samfélagsfriðinn og það felst ekki í henni skynsamleg ráðstöfun á samfélagsauðnum, á tíma vísindamanna og það er eðlilegt að marka betri lagalega umgjörð til að koma í veg fyrir lagatúlkun af þessum toga.

Ég teldi ástæðu til að ræða það sérstaklega á vettvangi umhverfis- og samgöngunefndar með hvaða hætti hægt væri að gera breytingar á gildandi lagaramma. Nú getum við deilt um lagatúlkanir Orkustofnunar og Landsvirkjunar en það er líka hægt að breyta lögum á þann veg að forða þessum stofnunum frá því að þurfa að leggja þennan bókstafsskilning í lagatextann sem þær vinna eftir, með því einfaldlega að breyta orðalaginu á þann veg að útiloka þann skilning.

Virðulegi forseti. Að síðustu vil ég láta nokkur orð falla um vísan þessa máls til nefndar, sem veldur að ósekju því að þetta ágæta mál sem ætti að geta verið dæmi um að hægt sé að ná víðtækri samstöðu um orkunýtingarkosti og að hægt sé að koma málum fyrir með þeim hætti að friður og sátt sé, að verið er að efna til átaka sem munu þá standa hér að óbreyttu um þetta mál og vekja efasemdir og tortryggni um hvað stjórnvöldum gangi til.

Ríkisstjórnin er með rúman meiri hluta í efnahags- og samgöngunefnd rétt eins og í flestum öðrum nefndum þingsins, sex menn af níu, og ég vil ekki trúa því fyrr en ég tek á því að það sé ótti hæstv. ráðherra við stjórnvisku formanns umhverfis- og samgöngunefndar sem ráði því í hvaða nefnd ráðherrann vill að málið fari, eða hvaða skaða getur eiginlega umhverfis- og samgöngunefnd unnið á þessu máli? Hún getur samþykkt það og hún getur synjað því. Ég vil fyrir mitt leyti segja að það er stuðningur við þetta mál í þingflokki Samfylkingarinnar og ég held að það sé engin ástæða til að óttast það að umhverfis- og samgöngunefnd valdi einhverju tjóni á því. En hver er þá ástæðan? Kann hún að vera sú að menn reyni að leita lags, reyni að finna leiðir til að færa virkjunarkosti milli flokka, færa eitthvað meira úr biðflokknum í orkunýtingarflokk án þess að fyrir liggi tillaga verkefnisstjórnarinnar þar um og freista þess að gera það hér á einhverjum hlaupum og að þeir treysti ekki forustu umhverfis- og samgöngunefndar til þess? Ég spyr því að hæstv. ráðherra verður auðvitað að gefa okkur einhverjar skýringar. Hann er sjálfur með tvo hatta, atvinnuvegahatt og umhverfishatt. Hann flytur þetta mál með umhverfishattinn á höfði og hann hefur ekki gert að því reka að flytja forræði þess frá umhverfisráðuneytinu til atvinnuvegaráðuneytisins.

Ég hlýt þess vegna að biðja hæstv. ráðherra um að endurskoða þá hugmynd um að vísa málinu til atvinnuveganefndar og vænti góðrar móttöku þeirrar beiðni því að það er fullkomlega ástæðulaust að efna til einhverra átaka um þetta mál. Það er gott, það horfir til framfara, það sýnir kosti þeirra umgerða sem við höfum búið við um vernd og nýtingu og það er mikilvægt að við höldum friðinn áfram á því sviði.