143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[22:46]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég bind að sjálfsögðu vonir við að við fáum góða og vandaða niðurstöðu frá verkefnisstjórninni í fyllingu tímans um Álftavirkjun. Hér er auðvitað og verður alltaf, og það verður alltaf í þessum málaflokki, mat á ólíkum kostum og það verða alltaf einhverjar náttúrufórnir við nýtingu orkukosta. Það er óhjákvæmilegt. Það á við hvarvetna og hvar sem er. Það skiptir máli að lágmarka þá hættu. Það skiptir líka máli að greina til fulls og rétt þá hættu og síðan að taka upplýstar ákvarðanir.

Síðan stöndum við líka frammi fyrir því að við höfum ekki alltaf fullt frelsi. Ef við kjósum að standa gegn orkukostum eins og til dæmis Hvammsvirkjun, sem hér er verið að leggja til að verði flutt í nýtingarflokk, eru vissulega einhver rök fyrir því að hana beri ekki að nýta en líka mjög sterk rök fyrir því að nýta hana. Þetta er rennslisvirkjun, hún er í byggð, hún er fullhönnuð. Hún er af þeirri stærðargráðu að bygging hennar mundi að líkum skapa mörg störf í nærsamfélaginu. Ef við síðan skoðum hina kostina sem menn fara þá að velta fyrir sér ef þeir mundu stöðva kost eins og þennan, erum við þá ekki bara að opna gröfusinnum leið að Norðlingaöldu? Erum við ekki að auka þrýstinginn á að menn fari frekar að spilla víðernum þar? Ég verð að segja út af fyrir sig að það er algerlega í annarri flokkun í mínum huga hvað verndargildi og nýtingargildi varðar. Ég held að við verðum þess vegna að passa það í umræðum um þessi mál (Forseti hringir.) að reyra verndarskrúfuna ekki svo fast að nýtingarþrýstingurinn leiti á aðra staði sem eru okkur enn kærari.