143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[22:53]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi aðferðafræði á sér náttúrlega langa sögu og við erum að tala um verkefnisstjórn rammaáætlunar III en rammaáætlun I og II eru að baki. Hér bendir verkefnisstjórnin á þennan veruleika sem í raun og veru byggir á því að í meginatriðum séum við ekki að símeta virkjunarkosti heldur sé alltaf ákveðinn stokkur undir sem sé metinn og lagður fyrir þingið á fjögurra ára fresti.

Í lokaorðunum kemur síðar fram, með leyfi forseta:

„Til að unnt sé að beita þessari aðferðafræði þarf nokkur fjöldi virkjunarkosta að vera til umfjöllunar samtímis og ekki er leyfilegt að framkvæma matið fyrr en nægjanleg gögn liggja fyrir varðandi þá virkjunarkosti sem til umfjöllunar eru. Aðferðafræðin gefur ekki möguleika á að framkvæma mat á stökum virkjunarkosti eða mjög fáum virkjunarkostum, enda er þá ekki hægt að framkvæma marktækan samanburð á milli kosta.“

Í mínum huga snýst þetta um það að aðferðafræðin er um leið ákveðið agatæki á stjórnvöld á hverjum tíma. Verkfærið eða tækið segir okkur: Það gengur ekki að þið gangið um og pikkið hitt og þetta og metið það si og svo. Það er vegna þess, eins og kemur fram og hv. þingmaður veltir upp, að auðvitað er ekki um absalút ákvarðanir að ræða. Þetta er alltaf afstætt og alltaf í samhengi við tímann sem við lifum, hugmyndafræðina sem er í gangi á hverjum tíma, aðra möguleika og síðast en ekki síst þörf eða ekki þörf á meiri orku, sem er kannski umræða sem við ættum að eyða meiri tíma í.

Ég spyr hv. þingmann hvort hann deili með mér þessum vangaveltum. Er þetta verklag sem hefur byggst upp í áranna rás, á mjög löngum tíma? Er það ekki dýrmætara en svo að við eigum að setja það til hliðar fyrir ávinninginn af því að geta símetið kosti þegar ekki einu sinni (Forseti hringir.) liggja fyrir plön eða áætlanir um nýtingu þeirrar orku sem þar er undir?