143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[22:55]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála því að mikilvægt er að standa vörð um aðferðafræðina og eins og ég rakti ítarlega í ræðu minni tel ég vera efni til að endurskoða lagarammann til þess að koma í veg fyrir þetta símat verndaðra kosta sem bæði Landsvirkjun og Orkustofnun virðast fyrir sitt leyti telja sig lögþvingaða til að fara fram á.

Það er líka mjög athyglisvert í ljósi þessa samhengis, erindisbréfsins frá umhverfisráðherra og orða verkefnisstjórnarinnar, að um leið er hægt að leiða að því líkum að ekki séu miklar líkur á að fram komi frá verkefnisstjórninni mat eða að það sé flókið að koma aftur með mat þar sem einstakir kostir eru teknir út. Og það vekur þá aftur hjá mér ugginn sem ég rakti hér áðan, að ástæðan fyrir því að verið sé að leggja áherslu á að þetta mál fari í atvinnuveganefnd sé að menn telji hana einhvern veginn öðruvísi samsetta og innvolsið á þann hátt að þar sé betur hægt að finna stuðning við að flytja þá kosti sem ráðherra hefur kannski enga tryggingu fyrir að verði teknir til afgreiðslu eða mats einir og sér á næstu missirum og flytja yfir í verndarflokk núna. Það er auðvitað áhyggjuefni því að þá er verið að ganga þvert á aðferðafræðina.