143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[23:00]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ef lengdin á mælendaskránni ræður þessu mati forseta hygg ég að hún sé ekki endanleg og enn þá talsvert af þingmönnum, a.m.k. úr mínum hópi, sem hafa í hyggju að taka til máls í málinu. Ég held að það sé ekki í boði að lengja fundinn.

Nefndarfundur á að hefjast kl. 8.15 hjá tveimur nefndum, efnahags- og viðskiptanefnd og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, þar sem stjórnarandstaðan hefur sérstaklega greitt fyrir því að hægt sé að hafa aukaþingfundardag á morgun til að liðka fyrir hjá forseta Alþingis. Ég geri ráð fyrir því að fundinum sé að ljúka núna vegna þess að það er ekki hægt að bjóða upp á að halda umræðu áfram lengra inn í kvöldið þegar þingmenn eiga eftir að kynna sér þá stóru skýrslu sem lögð var fram í dag og á að koma hér til umræðu kl. 12 á morgun.

Forseti Alþingis getur ekki hagað vinnu Alþingis með þeim hætti að bjóða þingmönnum upp á lengri fund. (Forseti hringir.) Það hlýtur að hafa alvarlegar afleiðingar ef sú verður raunin.