143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[23:01]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Til viðbótar við þann veruleika sem hér hefur verið dreginn upp, að við erum að fara að halda hér nefndarfund í fyrramálið kl. 8.15 í tveimur nefndum um afar mikilvægt mál, liggur fyrir mikill ágreiningur um vísan málsins til nefndar. Til viðbótar er það ekki hefðbundinn ágreiningur sem verður með eðlilegustum hætti leiddur til lykta í atkvæðagreiðslu í þingsal heldur liggur fyrir ósk um gögn frá skrifstofu þingsins.

Ég veit ekki hvort skrifstofa þingsins er að störfum akkúrat núna til að tína saman þessi gögn, þ.e. fordæmi um að breytingartillaga við áður afgreitt þingmál hafi farið til annarrar nefndar en upphaflegt mál var unnið í. Þessi gögn þurfa að liggja fyrir vegna þess að hér er um að ræða vont fordæmi ef það er satt. Það skapar lausung og vitleysisgang í þinginu (Forseti hringir.) ef þetta á að verða regla.