143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[23:08]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég tek sem þingflokksformaður Samfylkingarinnar undir kröfu um að forseti geri hlé á fundi og að haldinn verði fundur forseta Alþingis með þingflokksformönnum. Ég hlýt að undirstrika hér að þingflokksformenn og allir þingflokkar í þinginu hafa sýnt forseta Alþingis alveg sérstaka lipurð til að gera honum það mögulegt að standa að því með sóma að taka á dagskrá þá skýrslu sem lengi hefur verið unnið að. Ef síðan á að bjóða þingmönnum, sem hafa með þeim hætti greitt fyrir þingstörfum og sett á aukaþingdag, upp á að þeir eigi að tala inn í nóttina fyrir þá alvarlegu fundi sem hér eiga að fara fram á morgun er það algerlega óviðunandi.

Ég mótmæli þeirri aðför að sjálfstæði þingsins að hér eigi að láta framkvæmdarvaldinu líðast (Forseti hringir.) að ganga sérstaklega fram hjá hv. þm. Höskuldi Þór Þórhallssyni af því að hann hefur leyft sér að sýna sjálfstæði í störfum sínum sem nefndarformaður í þinginu. (Forseti hringir.) Það er algerlega til vansa ef forseti Alþingis ætlar að túlka þingsköpin með þeim hætti að það sé hægt að vísa málum eins og framkvæmdarvaldinu hentar hverju sinni.