143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[23:16]
Horfa

Edward H. Huijbens (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Hér hef ég setið í allan dag og alla þessa viku fram á kvöld alla daga og hef hlustað í dag og í kvöld á alla þá umræðu sem fram hefur farið og kveð mér í fyrsta skipti hljóðs um fundarstjórn forseta.

Í mínum augum liggja þrjú veigamikil málefnaleg rök fyrir því að fundi skuli nú frestað. Í fyrsta lagi var gert samkomulag um liðkun fyrir þingstörfum með því að bjóða upp á sérstaka umræðu um sparisjóðaskýrsluna á aukadegi sem ekki var í starfsáætlun þingsins. Samkomulag var gert við þingmenn um það. Þann dag þarf auðvitað að undirbúa bæði gagnvart nefndum sem verða í fyrramálið kl. 8.15 og svo auðvitað fyrir sérstöku umræðuna. Skýrslan er hátt í 2 þús. blaðsíður og við þurfum að fá tækifæri til að kynna okkur þær.

Það er málefnalegur ágreiningur um hvert skuli vísa málinu og hafa verið kynnt til sögunnar nokkur málefnarök þar að lútandi.

Í þriðja lagi liggur fyrir ósk um greiningu á því hvernig fordæmi það skapar ef það á að breyta út af vanalegri vísan mála með þessum hætti. Sú greining þarf að liggja fyrir áður en ákvörðun er tekin um það hvert eigi að vísa málinu.