143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[23:18]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mér finnst mikilvægt að fá einhvern botn í það hvernig hæstv. forseti hyggst halda á málum hér áfram og bregðast við þeim óskum og sjónarmiðum sem hafa komið fram í umræðunni síðasta hálftímann eða svo þar sem gerð hefur verið athugasemd við tillögu hæstv. ráðherra um vísan þess máls sem hér er til umfjöllunar og einnig hafa komið upp sjónarmið um mikilvægi þess að þingmönnum gefist ráðrúm til að undirbúa nefndarfund snemma í fyrramálið og svo umræðuna á morgun, sérstaka umræðu um þetta stóra mál, sparisjóðaskýrsluna sem kom út í dag.

Ég stóð í þeirri meiningu að við værum með þessu þingmáli sem hér er til umfjöllunar að ræða umhverfismál. Hæstv. umhverfisráðherra flytur það og það er breyting við þingsályktun sem var til meðhöndlunar í umhverfis- og samgöngunefnd á síðasta löggjafarþingi. Í athugasemdum við þingsályktunartillöguna er margítrekað vísað í meirihlutaálit umhverfis- og samgöngunefndar sem er grundvöllurinn (Forseti hringir.) fyrir þeirri breytingartillögu sem hér liggur fyrir. Svo kemur allt í einu hæstv. ráðherra og vill vísa málinu eitthvert annað. Það er tortryggilegt (Forseti hringir.) og hæstv. forseti hlýtur að átta sig á því að við þurfum að fá skýr svör.