143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[23:28]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er leitt að við skulum vera að fara að ræða þetta mál fram á nótt bara fyrir þann klaufaskap að ekki hafi verið haft samráð eða skýringar gefnar á því hvers vegna menn taka mál úr ákveðnum farvegi og færa milli nefnda. Hvaða skilaboð er verið að gefa með því, hvað eru menn að reyna að gera? Er verið að sniðganga ákveðna nefnd vegna fyrri mála? Er verið að gera þetta út af álagi í nefndum, eða eru þetta skilaboð um að nú eigi ekki að ræða um umhverfisvernd lengur, umhverfisráðuneyti vísar málum í atvinnuveganefnd, að þar eigi að taka umhverfismálin fyrir? Mér finnst þetta býsna alvarlegt mál vegna þess að í raun hafa allir sem hér hafa talað verið að vanda sig við að reyna að styrkja ferlið sem verið var að reyna að búa til um náttúruverndaráætlun.

Það er kannski þess vegna sem ég er kominn hér upp, að mér heyrist á umræðunni að gríðarlega mikil tortryggni ríki. Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir nefndi í lokin allar þær tillögur sem Orkustofnun hendir inn í umræðuna, og túlkar þar með rammáætlunina eða þessa þingsályktunartillögu þannig, að það sé nánast skylda hennar að láta endurmeta alla kosti við fyrsta tækifæri. Hvað þýðir það að hægt verði að gera það jafnóðum, ég veit ekki hversu oft. Í raun stendur í lögunum, ég fór yfir það í ræðu minni, í 3. gr. að eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti eigi að leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Ég hef skilið þennan texta á þann veg að á fjórða árinu séum við að vinna slíkar tillögur, það sé ekki gert daginn eftir að maður er búinn að afgreiða hana og fjórum sinnum á fjórum árum af því að við erum alltaf innan fjögurra ára frests.

Mig langar að heyra skoðun hv. þingmanns á þessu, af því ég veit hún impraði á þessu. Svo eru fleiri mál sem mig langar að ræða við hana í seinna andsvarinu.