143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[23:30]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu vekur þessi málsmeðferðartillaga tortryggni af því að það sjá allir hversu gríðarlega óskynsamleg hún er. Við getum ímyndað okkur ef hér væri verið að færa virkjunarakost úr biðflokki í verndarflokk. Þá mundum við vísa þeim hluta tillögunnar til hv. umhverfis- og samgöngunefndar, því að hún fæst við vernd, og þeim hluta sem sneri að því að færa virkjunarkost úr biðflokki í nýtingu yfir til hv. atvinnuveganefndar. Við sjáum öll hversu ótrúlega banalt þetta er og þröng túlkun á ákvæðum þingskapa sem enginn hefur skilið svona hingað til. Þannig að auðvitað vekur þetta tortryggni.

Hvað varðar hitt sem lýtur að Orkustofnun þá vakti það furðu þegar orkumálastjóri leggur fram þessar tillögur. Fyrst var því haldið fram að það væri skylda Orkustofnunar að koma með tillögur að nýjum virkjunarkostum, suma hverja í verndarflokki rammaáætlunar, suma hverja beinlínis á náttúruminjaskrá. Þegar lögin eru lesin kemur fram að það er engin skylda þar á bak við. Fyrst og fremst er það hlutverk Orkustofnunar að taka við hugmyndum orkufyrirtækja um virkjunarkosti og leggja þær fram, en þeim er heimilt að koma með tillögur. Þarna tekur Orkustofnun sig til og hendir inn 91 tillögu, ef ég man rétt, að virkjunarkostum sem nýlega, bara nánast í gær, er búið að flokka í verndarflokk og sumir hverjir hafa verið á náttúruminjaskrá.

Þannig að auðvitað sjá allir að það er ekki til þess fallið að skapa sátt, það er bara eins og eitthvert grín, að ganga fram með þessum hætti. Auðvitað er búið að lýsa þetta allt upp og allir sjá að þarna er Orkustofnun ekki að gera neitt sem heyrir undir hennar skyldu, bara hennar vilja. Þá veltum við fyrir okkur: Hvar er þessi umræða stödd? Fyrir hvað á til að mynda að virkja alla þessa kosti sem Orkustofnun leggur hér fram? Það hlýtur að vera spurning sem við spyrjum okkur. Hvert á allt að það rafmagn að fara? Við erum ekki með neitt í hendi um það.

Auðvitað vekur það tortryggni þegar við erum með samþykkta rammaáætlun, ársgamla, og strax er farið að hræra í henni með þessum hætti af hálfu opinberra stofnana.