143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[23:41]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég nefndi það hér áðan, þegar við vorum að ræða þingsályktunartillöguna á síðasta kjörtímabili, að þá voru mikil læti í þingsal og mikið talað um svik og pretti. Við sem vorum að vinna við þetta — það var í rauninni alveg sama hvað við sögðum, við vorum talin ganga erinda einhverra annarra sjónarmiða en þeirra sem fólust í ferlinu og lögunum frá árinu 2011 um rammaáætlun. Vinnan hefur náttúrlega staðið yfir í áratugi. Það hefði verið afar óskynsamlegt ef við hefðum ætlað að bulla eitthvað þarna á síðustu metrunum, en samt sem áður var niðurstaða okkar gerð tortryggileg. Ég held að það hafi verið gert í pólitískum tilgangi alveg eins og ég held að það að vísa þessum hluta rammaáætlunar til atvinnuveganefndar en ekki í fagnefndina sé einmitt gert í pólitískum tilgangi. Það veldur mér miklum áhyggjum.

Ég vil spyrja hv. þingmann, sem er nú nefndarmaður í umhverfis- og samgöngunefnd og áhugamanneskja um alla þessa hluti, hvað hún sjái fyrir sér að við getum gert til þess að laga samskipti um þetta mikla hagsmunamál. Á góðum stundum tala stjórnarliðar um að mikilvægt sé að finna sátt um vernd og nýtingu orkusvæða, en svo þegar á hólminn er komið er allt gert tortryggilegt og menn vilja ýta sem flestu í nýtingarflokk.