143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[23:55]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég er mjög fylgjandi almennri íhugun um mál og ef til að mynda þessi málsmeðferðartillaga hefði verið íhuguð betur hefði hún líklega ekki verið eins og hún var. Ég vil því hvetja virðulegan forseta til þess meðan hann íhugar lengd fundar að íhuga líka málsmeðferðartillöguna því að það er hún sem flækist verulega fyrir þingstörfum. Hér hefur verið farið enn og aftur yfir þau málefnalegu rök sem eru fyrir því að vísa málinu til réttrar nefndar, hv. umhverfis- og samgöngunefndar, og ég treysti á að virðulegur forseti hlusti eftir þeim rökum og taki þau með í íhugun sína um lengd þingfundar. Ég minni á að ekki er hægt að taka ákvörðun um hvert þessu máli er vísað fyrr en a.m.k. sú greinargerð sem hér hefur verið óskað eftir frá skrifstofu þingsins liggur fyrir. Við getum ekki lokið umræðunni fyrr en hún liggur fyrir þannig að þessari umræðu verður ekki lokið í kvöld. Það er algerlega á hreinu.