143. löggjafarþing — 95. fundur,  11. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[00:08]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er sorglegt að við séum að fara inn í nóttina fyrst og fremst að ræða um formsatriði varðandi meðferð á tillögunni. Ég hafði ekki ætlað mér að segja það en þegar ég heyrði tillögu um að hv. atvinnuveganefnd ætti að fá þetta mál til umsagnar vakti athygli mína að hæstv. forseti var tilbúinn með skýringuna á af hverju það væri réttlætanlegt að þetta færi í atvinnuveganefnd. Ég held að hann hafi einmitt orðað það þannig að það væri réttlætanlegt eða hægt að fara með málið í hv. atvinnuveganefnd.

Í rauninni bendir það til þess að á bak við þetta liggi eitthvað annað. Eins og ég segi eru einhverjar skýringar á því af hverju menn velja að fara í þennan farveg. Eru menn að gefa þau fyrirmæli að þrátt fyrir að málið sé flutt af umhverfis- og auðlindaráðherra eigi mál allt eins að fara í atvinnuveganefnd? Við höfðum það í flimtingum áðan að kannski væri þá hægt að rökstyðja það með því að þarna ætti að fjalla um laxana í Þjórsá en það er auðvitað ekki þannig.

Efni máls hefur allt of lítið verið rætt og í rauninni byrjaði umræðan strax um það að allir þeir sem hafa verið í umræðunni í kvöld hafa tjáð sig um að þeir vildu helst fylgja þessari þingsályktunartillögu, a.m.k. leyfa henni að ganga fram, vegna þess að menn héldu sig þá við formið í rammaáætluninni. Mig langar að inna hv. þm. Ólaf Þór Gunnarsson álits á því hvort hann sé ekki sammála því að í raunveruleikanum væri eðlilegast — þarna var skilið eftir mál sem átti að fara í mat í biðflokki. Nú kemur sú niðurstaða að ef allt væri eðlilegt ætti í raunveruleikanum að vera auðvelt að fara með það í gegn ef traustið væri fyrir hendi um að þannig væri almennt (Forseti hringir.) unnið með val á kostum.