143. löggjafarþing — 95. fundur,  11. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[00:15]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þarna hafi hv. þingmaður hitt naglann á höfuðið, a.m.k. að þessu leyti til. Í fyrra töldum við okkur, a.m.k. ég, samþykkja ákveðið verklag jafnhliða því að samþykkja rammaáætlun. Í því verklagi hlyti að eiga að felast að kæmu til breytingartillögur við rammaáætlun hlytu þær að byrja í hv. umhverfis- og samgöngunefnd og halda síðan áfram eftir atvikum beint inn í þingsal eða til umsagna annarra þingnefnda ef umhverfis- og samgöngunefnd teldi þess þurfa. Það hefði verið hið eðlilega verklag og það er í rauninni eins og ég sé það hluti af þessari sátt sem náðist um rammaáætlun.

Eins og ég sagði áðan var rammaáætlunin eins og hún var samþykkt ekkert endilega óskarammaáætlunin mín. Hún var það alls ekki en ég taldi mikilvægt á þeim tímapunkti að við næðum lendingu og sátt um það með hvaða hætti við ætluðum að gera þessa hluti áfram.

Ég man ekki eftir að hafa heyrt um það í athugasemdum hv. þingmanna, til að mynda við atkvæðagreiðsluna, að þegar kæmi að næsta þingi mundu þeir hrista upp í fyrirkomulaginu innan þings. Menn höfðu uppi svardaga um það að þeir mundu reyna að færa kosti á milli flokka en ég man ekki til þess að nokkur einasti maður hafi talað um að þeir ætluðu að nota einhver bellibrögð til að eiga auðveldara með að koma málum í gegnum einhverjar tilteknar þingnefndir. Ég held að hér sé ekkert annað en meinbægni á ferð að reyna með þessum hætti (Forseti hringir.) að komast hjá því að fela nefnd, sem hefur sýnt sig á þessu þingi vilja ná sátt og góðum lendingum, að taka málið.