143. löggjafarþing — 95. fundur,  11. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[00:18]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna, en verð að segja að mér er nokkur vandi á höndum. Ég átti ekki von á því satt að segja að ég mundi blanda mér í umræðuna um þetta þingmál. Þetta er niðurstaða úr ferli sem við þingmenn Samfylkingarinnar höfum stutt með þeim eðlilega fyrirvara að málið sé undirbúið með réttum hætti og annað þess háttar. Ég átti ekki von á öðru en að niðurstaðan úr því ferli sem við höfum stutt væri eitthvað sem við gætum stutt fyrir okkar leyti. Ég kannaði það a.m.k. þegar málið kom á dagskrá. Þeir þingmenn okkar sem hér eru nú hafa allir litið á þetta mál með jákvæðum augum. Síðan þegar sú tillaga kemur að vísa málinu ekki til umhverfis- og samgöngunefndar heldur til atvinnuveganefndar þá vakna auðvitað miklar áhyggjur af því að eitthvað annað sé á ferðinni en hefur verið kynnt.

Nú er það þekkt að hæstv. umhverfisráðherra hefur haft áhuga á því að leggja niður umhverfisráðuneytið og maður veltir því fyrir sér hvort hann hafi í hyggju, úr því að hann náði ekki fram þeim fyrirætlunum sínum, að að leggja niður umhverfisnefnd Alþingis með því að vísa bara ekki umhverfismálum til þeirrar nefndar heldur til allt annarra nefnda.

Það sem vakti sérstakar áhyggjur hjá mér var þegar hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson benti á að þegar málið væri komið til nefndar væri hægt að bæta inn í það fleiri þáttum en eru í því við fyrri umr. og keyra það að svo búnu í gegnum þingið. Telur þingmaðurinn að ástæða sé til að ætla að hæstv. umhverfisráðherra hafi slík undirmál uppi í þessum málatilbúnaði, að þetta sé einhvers konar trójuhestur sem eigi að lauma í gegnum þingið á vordögum og láti lítið yfir sér í þessum búningi en verði síðan breytt skyndilega í (Forseti hringir.) atvinnuveganefnd og komi sem allt annað mál (Forseti hringir.) til síðari umr.?