143. löggjafarþing — 95. fundur,  11. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[00:20]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Er von að spurt sé? Ég óttast að þarna hafi hv. þm. Helgi Hjörvar einmitt komið að kjarna málsins, að ætlunin sé að taka það inn í tillögugreinina sem margir þingmenn og vafalítið margir landsmenn einnig hafa litið á sem „vægasta virkjunarkostinn“ í neðri hluta Þjórsár — þetta er a.m.k. ekki Urriðafoss, ha? Nei, nei, honum er hlíft — og koma þannig málinu til þingnefndar og geta þar í rólegheitum, í skjóli flýtis á vordögum þegar þarf að ljúka málum og klára, tínt inn einn og einn kost í viðbót. Ég óttast það.

Því miður eykur umræðan hér í kvöld þann ótta og sú aðferð sem hæstv. ráðherra virðist ætla að nota til að koma málinu til atvinnuveganefndar. Þrátt fyrir ítrekuð tilmæli hefur ekki verið gefinn nokkur einasti ádráttur um að breyta því. Auðvitað vekur það hjá manni ugg og maður heldur að það hljóti eitthvað dýpra að búa að baki. Þess vegna skil ég ekki, mér er algerlega fyrirmunað að skilja það, af hverju hæstv. forseti stöðvar ekki þennan þingfund og kallar þingflokksformenn á fund sinn. (Forseti hringir.) Ég mundi ekki gera neina einustu athugasemd við það þótt hann leyfði hæstv. (Forseti hringir.) umhverfis- og auðlindaráðherra að vera með á þeim fundi (Forseti hringir.) ef það gæti varpað einhverju ljósi á hvaða fyrirætlanir menn hafa (Forseti hringir.) um þetta mál.