143. löggjafarþing — 95. fundur,  11. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[00:23]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ástæða til þess að hafa áhyggjur af undirmálum og hafa varann á, en við eigum auðvitað líka og ekki síst svo seint að kvöldi eða snemma að nóttu, eins og hæstv. forseti mundi sennilega vilja orða það, að vera bjartsýn. Ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýnn. Ég ætla að leyfa mér að trúa því, a.m.k. þangað til ég tek á öðru, að það sé bara ótrúlegt klúður hjá umhverfisráðherra að koma hingað með mál, sem á bilinu 50–60 alþingismenn eru tilbúnir að standa við og styðja og taka til afgreiðslu í þinginu, en takast síðan með einhverjum ótrúlegum hætti að klúðra því með tillögu um málsmeðferð í þinginu sem verður til þess að stór hluti þingmanna hlýtur að rísa öndverður gegn því hvernig málið ber að. Ég held að það sé ákveðin von til þess að þetta sé bara klúður af þessu tagi.

Satt að segja höfum við á þessum þingvetri séð hvert klúðrið á fætur öðru í málatilbúnaði og ótrúleg handarbakavinnubrögð, flumbrugang og fljótfærni. Þess er kannski fyrst að minnast frá þessum hæstv. ráðherra þegar hann kom fram með hugmyndir um að leggja niður umhverfisráðuneytið árið 2014.