143. löggjafarþing — 96. fundur,  11. apr. 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna.

[12:20]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil fyrst af öllu þakka þá skýrslu sem nú liggur fyrir af hálfu rannsóknarnefndarinnar. Hún verður okkur án efa á næstu mánuðum efniviður í umræður og greiningar á því sem aflaga fór í rekstri og starfsháttum sparisjóðanna í aðdraganda hruns. Það er mikilvægt þegar við byrjum þessa umræðu að rifja upp sögu sparisjóðanna og minnast þess að þeir voru undir lok 19. aldar, þegar saga þeirra hófst, nauðvörn samfélags sem bjó við skort á aðgengi að fjármagni. Til að leysa úr þeim vanda hófu menn samskotafélög til að tryggja möguleika á fjármögnun verkefna. Víða voru sparisjóðir reknir með mjög lítilli yfirbyggingu mjög lengi. Margir þeirra voru ekki einu sinni með launaða starfsmenn lengi framan af og einkenni starfshátta þeirra voru að vinna í þágu starfssvæðis síns og styðja þar við uppbyggingu atvinnulífs. Af þessari ástæðu hafa sparisjóðirnir auðvitað notið mikils pólitísks velvilja því að menn hafa séð þennan samfélagslega ásetning í rekstri þeirra.

Mér er minnisstætt frá síðasta kjörtímabili þegar við hæstv. forseti áttum oft samræður um mikilvægi sparisjóðanna og hvernig hægt væri að finna þeim framtíðarrekstrarform að viljinn til þess að finna sparisjóðunum og þessu rekstrarformi, áhættulitla rekstrarformi í þágu nærumhverfisins, traustan starfsgrundvöll var þvert á flokka. Á síðustu áratugum hefur samkeppnisstaða sparisjóðanna hins vegar breyst með tækniframförum þegar fólk er skyndilega ekki lengur bundið við það að geta bara fengið fjármálaþjónustu í nærumhverfi sínu með einkavæðingu stóru bankanna sem olli því að þeir sóttu meira til almennings á starfssvæði sparisjóðanna. Á mörgum svæðum var þegjandi samkomulag um tiltekna markaðsskiptingu áratugum saman sem brotnaði um leið og bankarnir fóru í einkaeigu.

Það leiddi til þeirrar þversagnar að sparisjóðir sem hefðu átt að njóta samkeppnisforskots í ljósi þekkingar sinnar á staðbundnum aðstæðum voru nauðbeygðir til þess að reyna að finna sér arðbærari verkefni annars staðar en heima hjá sér. Þessi saga er ágætlega rakin í skýrslunni þegar sparisjóðirnir fara að reyna að finna einhverjar leiðir til að fjárfesta í einhverjum verkefnum sem þeir höfðu enga sérþekkingu til að greina eða velja milli slæmra og góðra kosta. Afleiðingarnar voru hörmulegar.

Það er heldur ekki hægt að horfa fram hjá breytingum á lagaumgjörð allt frá opnun hagkerfisins og opnun íslensks fjármálamarkaðar árið 1993 og fram á síðustu ár. Annars vegar var þá opnað fyrir rýmri starfsheimildir sparisjóða í samræmi við almennar reglur sem önnur fjármálafyrirtæki þurftu að uppfylla og á hinn kantinn búinn til farvegur fyrir ásókn í það stofnfé sem myndast hafði og safnast upp í þessum stofnunum frá upphafi. Með lagabreytingum varð með einum eða öðrum hætti mögulegt að komast yfir þetta uppsafnaða fé. Sjóðirnir voru þannig uppbyggðir að einungis um 10% af því fé sem í þeim var voru í eigu stofnfjáreigenda. Afgangurinn var í sjóði en stofnfjáreigendurnir gátu tekið ákvarðanir fyrir allan þennan sjóð.

Á árunum upp úr aldamótum var oft talað um þann vanda sem í því fælist að þarna væri fé án hirðis. Ég held að reynslan sýni okkur að vandinn var ekki að það væri fé án hirðis. Vandinn var að hirðarnir reyndust ekki verðir þess trausts að fara með féð. Svo virðist sem við búum við og höfum búið við á undanförnum árum og áratugum eitthvert landlægt óþol gagnvart uppsafnaðri eignamyndun í almannaeigu. Mér finnst hliðstæðan af örlögum sparisjóðanna við örlög verkamannabústaðakerfisins alveg sláandi. Í verkamannabústaðakerfinu hafði myndast samfélagsleg eign í nærri 70 ára sögu. Núverandi stjórnarflokkar gáfu hana í einu vetfangi þeim sem sátu í þeim íbúðum á tilteknum degi. Það var eitthvert slíkt eitur í þeirra beinum að til væri samfélagsleg eign sem ekki lyti forsjá markaðarins. Hvar stöndum við nú? Við stöndum frammi fyrir alvarlegu ástandi á húsnæðismarkaði, brýnni þörf á að byggja aftur upp þann stokk félagslegs húsnæðis sem við eitt sinn áttum saman. Við munum þurfa að kosta gríðarmiklu til af ríkisfé til að gera það á næstu árum og áratugum þegar illa árar í ríkisrekstri.

Mér finnst þessi hliðstæða skipta máli. Það var ekkert að því að til væri eitthvað sem héti stofnfé í samfélagslegri eigu án beinnar stjórnar einkaeignarréttar í sparisjóðunum. En það var markmið í sjálfu sér að ná að sölsa það undir sig. Greinar voru skrifaðar í blöð um leiðina að stofnfénu, hvernig hægt væru að komast að því og menn útfærðu leiðir til þess. Síðan leiddi samkrull stjórnenda sparisjóðanna á ákveðnum stöðum og valinna fyrirtækja til þess að stöndugir sparisjóðir voru étnir að innan. Manni kemur þá að sjálfsögðu fyrst í hug sagan af Keflavík þar sem ráðandi öfl mergsugu þann sjóð og fóru svo illa með hann að hann reyndist eina fjármálastofnunin sem átti ekki fyrir forgangskröfum. Hann átti ekki fyrir innstæðum þegar hann fór í þrot. Allar aðrar fjármálastofnanir í landinu reyndust eiga fyrir innstæðum.

Við tölum um óábyrga bankastarfsemi í stóru bönkunum. Meira að segja í Landsbankanum þar sem tæpast stóð áttu menn fyrir innstæðum, en ekki í Sparisjóði Keflavíkur, því stönduga fyrirtæki sem hafði verið stólpi atvinnulífs og mannlífs á Suðurnesjum.

Þessi saga er ekki rakin í miklum smáatriðum í skýrslunni vegna þess að skýrsluhöfundar hafa vísað til sérstaks saksóknara málum er varða viðskipti af þessum toga, viðskipti fyrirtækja sem eru vensluð stjórnarmönnum með einhverjum hætti. Það blasir við að þetta hefur gerst, bæði í Keflavík og hjá SPRON.

Við eigum því enn eftir að fá til fulls myndina af þessu ömurlega kóketteríi pólitískra tengsla við forustu í sparisjóðum á einstökum stöðum þar sem ekki var farið að viðskiptalegum sjónarmiðum.

Við sjáum líka í skýrslunni lýsingu á hinum veiku innviðum sparisjóðanna. Þeir reyndust illa í stakk búnir til að takast á við nýjar kröfur um alls konar eftirlit, reglufestu og upplýsingaskyldu sem leiddi af breytingum í löggjöf. Við sjáum ágalla í eftirliti og óábyrga útlánastarfsemi almennt séð sem er ekki nýlunda.

Afstaða okkar í Samfylkingunni hefur verið sú að við erum jákvæð gagnvart sparisjóðunum, en þeir verða að eiga sér sjálfstæðan rekstrarlegan grundvöll. Þessi afstaða hefur verið óbreytt frá því að við hófum í ríkisstjórn afskipti af sparisjóðakerfinu og hún er enn afstaða okkar. Það er ekki hægt að æskja þess af ríkisvaldinu að leggja fé til að styðja þennan rekstur til langframa. Við þurfum líka að horfa á með hvaða hætti almenn umgjörð bankakerfisins mætir þeim sjónarmiðum sem við teljum mikilvægt að sparisjóðirnir standi vörð um. Þá vil ég sérstaklega nefna að menn forðist áhættusækni og byggi í staðinn á hófsemi í útlánastarfsemi. Þetta eru gildi sem við viljum almennt að bankar tileinki sér í dag og það er spurning að hvaða leyti viðskiptabankarnir eins og við viljum regla þá í dag munu ekki uppfylla þessi gildi.

Það er líka varhugavert að horfa of mikið á form í þessu efni. Við tölum oft um mikilvægi þess að aðskilja viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingarbankastarfsemi til að draga úr áhættu, en það ætti líka að vera okkur holl lexía að sparisjóðirnir eru akkúrat bara með viðskiptabankastarfsemi. Jafnvel sá aðskilnaður hefði engu skilað okkur í þessu tiltekna tilviki.

Ég tek undir það sem hæstv. ráðherra sagði áðan, auðvitað þyrfti að byggja á greiningu á samkeppnisstöðu sjóðanna til langframa en það er til dæmis búið að búa til einfaldara starfsleyfi fyrir sparisjóði sem vilja starfa á heimamarkaði. Það er hins vegar athyglisvert að enginn hefur óskað eftir að fá slíkt starfsleyfi. Við þurfum þess vegna að reyna að tryggja þau gildi sem við viljum að sparisjóðir hafi áfram í heiðri í fjármálakerfinu, helst með virkri þátttöku sparisjóðanna, og við þurfum líka að útbreiða þau sömu gildi almennt í bankastarfsemi. Þau gildi héldu flestir sparisjóðir því miður ekki í heiðri á þeim árum sem fjallað er um í þessari skýrslu.