143. löggjafarþing — 96. fundur,  11. apr. 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna.

[12:59]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir skýrsluna og skýrsluhöfundum fyrir vinnu sína. Ég tek líka undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram um að allt of lítill tími líður frá því að skýrslan er lögð fram og til þess að við eigum að ræða hana á þingi. Hún er 1.800 og eitthvað blaðsíður og það er ekki vinnandi vegur fyrir nokkurn mann á svona stuttum tíma að koma sér upp einhverju rökstuddu áliti á því hvað verið er að segja í þessari skýrslu. Mér finnst þetta oft í umræðu hér um stór og mikilsverð gögn sem koma inn í þingið, allt of skammur tími gefinn til að kynna sér málin.

Mér finnst einfaldlega að við þurfum að breyta því. Ég veit að það er að koma fram frumvarp um að það eigi að líða að minnsta kosti þrjár nætur á milli þess að svona rannsóknarnefndarskýrsla er lögð fram og þangað til hún er rædd í þinginu. Ég styð það, ég held að það væri betri bragur að því að hafa það þannig.

Ég verð bara að segja það hreinskilnislega að ég hef rétt náð að renna yfir einhvern niðurstöðukafla og helstu fyrirsagnir í blöðum og svo fékk ég smákynningarfund í morgun. Af þeirri fyrstu yfirferð sé ég ekki, eftir allt sem hefur þó verið rannsakað í aðdraganda bankahrunsins, að þar sé neitt sem þurfi að koma sérstaklega á óvart. Mér og ég held velflestum Íslendingum blöskrar það sem gekk á í aðdraganda bankahrunsins og það hefur margt komið fram um það sem gekk á í sparisjóðunum, ásæknin í stofnféð, áhættusæknin og hvernig sparisjóðshugsjónin var fyrir borð borin í öllu havaríinu.

Það er fínt að það er komið gagn, skýrsla sem rekur þetta, en að því sögðu tek ég líka undir orð fyrri ræðumanns hér, hv. þm. Frosta Sigurjónssonar, um að það þurfi kannski að endurskoða hvað við ætlum að fá út úr rannsóknarnefndarskýrslum.

Mér finnst skýrslur Ríkisendurskoðunar nokkuð góðar. Ríkisendurskoðun hefur eftirlitshlutverk og Ríkisendurskoðun virðist yfirleitt ná að skila nokkuð stuttum og skýrum skýrslum þar sem vandamálið er útlistað nokkuð vel sem og hverju þarf að breyta í lagaumgjörðinni, eftirfylgni eða eftirliti. Mér finnst að maður eigi að taka svoleiðis skýrslugerð meira til fyrirmyndar, það er ekki nauðsynlegt að kortleggja alveg allan heiminn í þessum skýrslum. Ég held að rannsóknarnefndarskýrslan sem kom út beint eftir hrunið, sem var yfirgripsmikil og þurfti að vera það, sé ekki endilega til eftirbreytni um allar skýrslur sem við viljum láta gera í kjölfarið. Þær mega vera hnitmiðaðri og verklýsingin af okkar hálfu um skýrslur framtíðarinnar má vera hnitmiðaðri.

Við í Bjartri framtíð ætlum að þessu sinni ekki að vera margmál um þessa skýrslu. Við eigum eftir að kynna okkur hana miklu betur. Svo fer hún í þingnefnd og þar komum við að umfjöllun um hana þannig að ég ætla bara að fara yfir nokkur almenn atriði hér.

Skýrslan lýsir áhættusækni og meðvirkninni í íslensku samfélagi, gagnrýnisleysinu. Hún lýsir óhófi, óraunsæi og virðingarleysi fyrir hefðbundnum gildum í fjármálalífi, fyrir sparisjóðshugsjóninni.

En hvað ætlum við að læra af þessu? Ég ætla bara að segja örfá orð um að ég hef áhyggjur af því að við lærum ekkert sérstaklega mikið af þessari skýrslu og öðrum skýrslum sem hafa lýst svipuðu ástandi í aðdraganda hrunsins um hvað við erum að gera um þessar mundir í þingsal. Sparisjóðaskýrslan lýsir ásókn í sjóði sem voru fyrir hendi og átti að nýta til samfélagslegra verkefna. Meðferð þessara sjóða átti að einkennast af ráðdeild og framsýni en hvað var gert í græðgisvæðingu samfélagsins? Það var sótt í þessa sjóði og það var eftirspurn eftir því að eyða þeim strax, hér og nú.

Hvað erum við að gera núna? Umgöngumst við um þessar mundir af einhverri sérstakri virðingu og lærdómi okkar sameiginlegu sjóði? Ríkissjóður er fimmti skuldsettasti ríkissjóður Evrópu. Erum við ekki um þessar mundir að ræða það að deila úr honum 80 milljörðum til að auka einkaneyslu í raun og veru? Það eru klassísk hagstjórnarmistök og margoft hefur verið bent á það að hagstjórnin á Íslandi einkennist af því að við erum alltaf að spila með sveiflunni.

Erum við ekki að fara að gera það? Erum við ekki að fara að nýta sameiginlega sjóði til þess? Lífeyrissjóðirnir eru sameiginlegir og að mörgu leyti af svipaðri hugsjón og sparisjóðshugsjónin. Erum við ekki með lagafrumvarp hér sem á að leyfa fólki, og meira að segja hvatt til þess með skattaívilnunum, að eyða þessum peningum hér og nú í okkar þágu? Erum við ekki alltaf að ganga í sjóðinn? Streyma ekki lagafrumvörpin um þetta í þingsal?

Haftalánin sem sparisjóðirnir tóku þátt í voru dæmi um einhverja hjáleið til að komast hjá öllum skynsamlegum ráðleggingum um hagstjórn. Það átti ekki að hvetja til þenslu á fasteignamarkaði en einhvers staðar var gert samkomulag um að sparisjóðirnir mundu lána viðbótarlán ofan á lán Íbúðalánasjóðs, einhvern veginn til hliðar við allar þessar ráðleggingar. Tökum við ráðleggingar núna nógu alvarlega þegar við ræðum hagstjórn?

Þetta eru almenn orð um þessa skýrslu. Við eigum eftir að kynna okkur hana miklu betur. Ég vona að meðhöndlun nefndanna sem um hana munu fjalla verði góð og að það komi góð nefndarálit. Ég vona að við munum draga lærdóm af þessu. Ég vona að sérstakur saksóknari fari af röggsemi í þau mál sem til hans er beint. Svo vona ég að þetta allt saman verði ekki til þess að sparisjóðshugsjónin falli niður dauð vegna þess að hún er falleg, að fólk leggi saman í púkk og nýti samvinnuna og samhæfingarmáttinn til að koma á fegurra mannlífi og góðu samfélagi.